Innlent

Bandaríkjamenn gefa ekkert upp

Dómsmálaráðuneytið bandaríska gefur ekki upp rökstuðning eða bakgrunn ákvarðana sinna og lætur ekkert uppi um mögulegar fyrirætlanir sínar, segir Michael Kulstad, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins. Hann var spurður að því hvers vegna ráðuneytið hefði ekki farið fram á framsal skákmeistarans Bobby Fischer frá Japan og hvort mögulega yrði farið fram á framsal héðan, færi svo að japönsk yfirvöld heimiluðu Íslandsförina. Eins segir hann ekkert gefið upp um hvort Fischer gætu mögulega verið gefnar upp sakir í Bandaríkjunum. Benedikt Höskuldsson, sendifulltrúi í sendiráði Íslands í Japan, sagðist í gær ekki hafa heyrt í Masako Suzuki, lögfræðingi Fischers, en hún ætlaði að upplýsa sendiráðið um þróun mála í viðræðunum við japönsk yfirvöld til þess að hægt yrði að upplýsa ráðamenn hér heima. Í Japan sem og hér heima er frí fram yfir áramótin og því ekki von á að hreyfing komist aftur á mál Fischers fyrr en á þriðjudag í fyrsta lagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×