Lífið

Bubbi vill fá borgað í evrum

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
„Ég og umboðsmaður minn erum að leggja drög að því að mér verði borgað í evrum þar sem því verður komið við," segir Bubbi Morthens. „Ég hef ekki lengur trú á krónunni. Hún er ónýtur gjaldmiðill, og mun setja þúsundir manna á hausinn á næstu misserum á Íslandi. " segir Bubbi, sem vandar gjaldmiðlinum ekki kveðjurnar. „Krónan heldur þjóðinni í gíslingu."

Hann bendir á að þúsundir manna séu með lán í erlendum gjaldmiðlum, framtíðin sé ekki björt hjá þeim. „Það verða fjöldagjaldþrot með þessu áframhaldi. Og það heyrist ekki múkk frá ríkisstjórninni, ekki orð um þessi mál."

„Ríkisstjórnin ætti að vera löngu búin að taka af skarið og segja að Evrópusambandið væri inni í myndinni." segir Bubbi og bætir við að það sé rekinn hræðsluáróður gegn Evrópusambandinu. Það kæmi öllum landsmönnum til góða að ganga í það.

„Þetta var kannski skiljanlegt á meðan við lifðum eingöngu á fiski, og fiskurinn var það eina sem skilaði okkur tekjum. Það er liðin tíð. Það er árið 2008 og heimurinn er ekki það sem hann var. Meira að segja jöklarnir eru að hverfa, en ríkisstjórnin heldur fast í krónuna. Hvaða bull er þetta?"

Bubbi segir áberandi meirihluta þjóðarinnar fylgjandi Evrópusambandsaðild, og fólkið í landinu geti haft áhrif. „Fólk verður beita öllum sínum áhrifum. Þvinga yfirmenn þjóðarinnar til þess að sjá til þess að fólkið í landinu hafi það sem best og fái laun í gjaldmiðli sem gerir það að verkum að fólk geti lifað sómasamlega.Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.