Fleiri fréttir

Markaðir í Evrópu enn í niðursveiflu

Markaðir í Evrópu eru enn í rauðum tölum eftir stórfall beggja vegna Atlantsála í gær. G20 ríkin hafa boðað aðgerðir til að bregðast við sveiflum á mörkuðum.

Fengu 336 milljarða af 463 afskrifaða

Alls hafa 336 milljarðar af 463 milljörðum verið afskrifaðir hjá 41 fyrirtæki samkvæmt skýrslu eftirlitsnefndar efnahags- og viðskiptaráðuneytis um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Marel verðlaunað fyrir framúrskarandi tækjabúnað

Marel hlaut í dag verðlaun sem „framúrskarandi framleiðandi tækjabúnaðar á heildina litið“ þegar íslensku sjávarútvegsverðlaunin voru afhent í Gerðarsafni í Kópavogi. Sigsteinn P.Grétarsson, forstjóri Marel ehf., veitti verðlaununum viðtöku.

Hækkanir við opnun markaða - sérfræðingar þó enn svartsýnir

Þegar markaðir opnuðu í Evrópu klukkan sjö í morgun hækkuðu helstu vísitölur nokkuð, FTSE vísitalan í London hækkaði um eitt prósent við opnun en hefur nú lækkað á ný um hálft prósent. Svipaða sögu var að segja í París og í Frankfurt og þar var dálítil hækkun strax við opnun.

Atlantsolía lækkar bensínið um tvær krónur

Atlantsolía lækkaði bensínlítrann um tvær krónur í morgun. Dísel lækkar ekki að sinni að því er upplýsingafulltrúi félagsins segir í samtali við fréttastofu. Bensínið kostar nú 233,90 aura lítrinn en hæst fór verðið í 243,50 í sumar. Díselolía lækkar ekki að sinni og kostar lítrinn því enn 235,90.

Verðfallið hélt áfram í Asíu

Hlutabréf í Asíu héldu áfram að lækka við lokun markaða þar í nótt og fylgja lækkanirnar í kjölfarið á mikilli lækkun í Evrópu og Bandaríkjunum í gær. Vikan sem er að líða er því sú versta fyrir hlutabréfamarkaðina frá árinu 2008.

Staða lífeyrissjóðanna batnar

Ávöxtun lífeyrissjóðanna umfram verðbólgu var 2,65% í fyrra samanborið við 0,34% á árinu 2009. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðin 5 ár var -1,6% og meðaltal síðastliðna 10 ára var 2,2%. Þetta kemur fram í skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir síðasta ár. Skýrslan var birt á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins í dag. Fjármálaeftirlitið segir að raunávöxtun sjóðanna, það er ávöxtun umfram verðbólgu, fari því batnandi þrátt fyrir að margir sjóðir glími enn við eftirköst bankahrunsins.

Skýrr hýsir fyrir Virðingu

Verðbréfafyrirtækið Virðing hefur samið við Skýrr um heildarlausn í hýsingu, rekstri og útvistun upplýsingatækni. Um er að ræða miðlæga hýsingu með kerfisleiguhögun á öllu tölvuumhverfi, hugbúnaðarlausnum og gögnum Virðingar. Starfsfólk Virðingar mun þannig fá aðgang að eigin vinnuumhverfi, gögnum og hugbúnaði gegnum öfluga gagnatengingu við Skýrr.

Christine Lagarde: Heimurinn er á hættulegum stað

Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði efnahagsástandið væri á hættulegum stað vegna þeirra snörpu dýfu sem fjármálaheimurinn tók í dag eftir að seðlabanki Bandaríkjanna varaði við verulegri efnahagslegri hættu.

Ekkert lát á lækkunum

Ekkert lát hefur orðið á lækkunum á mörkuðum í Evrópu í dag. Hlutabréf í bönkum, námufyrirtækjum og olíufyrirtækjum hafa lækkað mest en fjárfestar óttast enn ástandið í Grikklandi og ástand efnahagsmála heimsins almennt. Lækkanirnar í Evrópu koma í kjölfarið á lækkunum í Bandaríkjunum í gær og þá lækkuðu helstu vísitölur í Asíu fyrir lokun í nótt. FTSE vísitalan í London hefur lækkað um um 4,75 prósent það sem af er degi, DAX vísitalan í Frankfurt hefur lækkað um 4,37 og CAC vísitalan í París hefur hrunið um fimm prósent..

Rauðar tölur á mörkuðum í Evrópu

Miklar lækkanir urðu á mörkuðum í Evrópu við opnun í morgun. Hlutabréf í bönkum, námufyrirtækjum og olíufyrirtækjum urðu verst úti en fjárfestar óttast enn ástandið í Grikklandi og ástand efnahagsmála heimsins almennt. Lækkanirnar í Evrópu koma í kjölfarið á lækkunum í Bandaríkjunum í gær og þá lækkuðu helstu vísitölur í Asíu fyrir lokun í nótt. FTSE vísitalan í London lækkaði um 3,2 prósent við opnun og DAX vísitalan í Frankfurt fór niður um 3,5 prósent.

Grikkir efna til verkfalla - mikil mótmæli í Aþenu

Verkföll lama nú samfélagið í Grikklandi en allar almenningssamgöngur hafa stöðvast í sólarhringsverkfalli sem ætlað er að mótmæla niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar. Þá er búist við gríðarlegu fjölmenni þegar opinberir starfsmenn koma saman í Aþenu í dag til að mótmæla.

Arion banki selur sparisjóði

Stofnfjárhlutir Arion banka hf. í AFLi-sparisjóði og Sparisjóði Ólafsfjarðar eru nú til sölumeðferðar hjá Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka. Í tilkynningu segir að boðin séu til sölu 94,45% stofnfjár í AFLi og 99,99% í Sparisjóði Ólafsfjarðar og er gert ráð fyrir að eignarhlutarnir verði seldir saman í einu lagi. Söluferlið er aðeins opið hæfum fjárfestum samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sem geta sýnt fram á að hafa til þess bæran fjárhagslegan styrk, eða aðgang að a.m.k. 800 milljónum króna í auðseljanlegum eignum, og geta sýnt fram á að vera hæfir til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Frestur til að sækja um er til 10. október næstkomandi.

Ikea opnar sérstakt karlaland

Ikea í Melbourne í Ástralíu ætlar að taka upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á sérstakt karlaland í verslun sinni. Þessi hluti verslunarinnar verður, eðli málsins samkvæmt, einungis opinn körlum. Hugmyndin er sú að þetta verði nokkurs konar athvarf fyrir karlmenn þar sem þeir geti borðað ókeypis pylsur, horft á íþróttir og spilað Xbox tölvuleiki á meðan betri helmingurinn skoðar húsgögn og annað þarfaþing fyrir heimilið.

Hundruð milljóna tap á Skjáeinum ár eftir ár

Skjárinn, sem rekur Skjáeinn, tapaði stórum hluta af veltu sinni árin 2007, 2008 og 2009 samkvæmt ársreikningum félagsins og er rekstrarsagan að því er virðist saga samfellds taprekstrar.

Fá 260 milljónir frá Evrópusambandinu

CarbFix vísindaverkefnið, sem rekið er við Hellisheiðarvirkjun, hefur fengið um 260 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu. Það er orkurannsóknahluti 7. rammaáætlunar ESB, sem hefur svo mikla trúa á verkefninu, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Bill Gates er ríkasti maður Bandaríkjanna

Bill Gates, stofnandi Microsoft, trónir á toppi nýs lista tímaritsins Forbes yfir ríkustu menn í Bandaríkjunum. Þar með skýtur hann mönnum eins og Warren Buffet ref fyrir rass.

Nýr iPhone kynntur 4. október

Tim Cook, forstjóri Apple, mun kynna nýjan iPhone 5 til sögunnar þann 4. október næstkomandi á stórum fjölmiðlaatburði í Bandaríkjunum.

Þrýstingur eykst á Grikki

Grikkir eru undir miklum þrýstingi til að skera niður og brúa fjárlagahallann á ríkissjóði en í húfi er 8 milljarða evra fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Um er að ræða jafnvirði 1.200 milljarða íslenskra króna.

Vextir ekki hækkaðir vegna minni verðbólgu og styrkingu krónunnar

Seðlabanki Íslands ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum þvert á spár greiningaraðila. Minni verðbólga í ágúst en búist hafði verið við, áframhaldandi styrking gengis krónunnar og lakari horfur í heimsbúskapnum eru meðal ástæða þess að vextir voru ekki hækkaðir segir Seðlabankastjóri.

Nýr fjármálastjóri Icelandic Group

Jóhann Gunnar Jóhannsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Icelandic Group. Jóhann var áður forstöðumaður hagdeildar félagsins.

Stýrivöxtum haldið óbreyttum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum. Stýrivextir verða því áfram 4,5 prósent. Þetta er þvert á spár sérfræðinga sem flestir höfðu gert ráð fyrir hækkun vaxtanna upp á 0,25 til 0,5 prósentustig.

Sigurjón Þ. Árnason: Málshöfðun slitastjórnar óskiljanleg

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir skaðabótamál slitastjórnar bankans á hendur sér algjörlega óskiljanlegt. Hann segir að einhver í Landsbankanum hljóti að hafa framlengt 19 milljarða króna lán til Straums eftir að hann fór úr bankanum eða tekið ákvörðun um að innheimta ekki lánið.

AGS telur hagkerfið hafa veikst umtalsvert

Alþjóðahagkerfið hefur veikst umtalsvert á síðastliðnum mánuðum, segir í árshlutaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Úrræðaleysi ríkisstjórna hefur orðið til þess að bæta við þau vandamál sem liggja í loftinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðiurinn segir að hagkerfið í Bretlandi muni vaxa hægar en áður var gert ráð fyrir. Gert var ráð fyrir 1,5% hagvexti en samkvæmt skýrslunni er nú gert ráð fyrir 1,1% hagvexti. Stjórnvöld í Bretlandi gera aftur á móti enn ráð fyrir 1,7% hagvexti en viðurkenna að sú tala muni lækka þegar spáin verður endurskoðuð næst.

Lækkunin af pólitískum toga

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að ástæða þess að matsfyrirtækið Standard & Poor's hafi lækkað lánshæfismat landsins gærkvöldi sé af pólitískum toga en ekki vegna raunverulegrar stöðu ríkissjóðs Ítalíu.

Misnotaði markaðsráðandi stöðu sína - 60 milljónir í sekt

Síminn misnotaði markaðsráðandi stöðu sína sumarið 2009 með tilboði sem fyrirtækið gerði notendum sínum. "3G netlykill og áskrift fyrir 0 kr. í allt sumar," stóð í tilboðinu. Í úrskurði samkeppniseftirlitsins er Símanum gert að greiða 60 milljónir króna í stjórnvaldssekt.

S&P lækkar lánshæfi Ítalíu

Matsfyrirtækið Standard&Poors hefur lækkað lánshæfi ríkissjóðs Ítalíu úr A plús niður í A og segir fyrirtækið horfur til framtíðar vera neikvæðar. Í skýringum með ákvörðuninni segir að lítil trú sé til þess að Ítölum takist að draga úr ríkisútgjöldum og koma lagi á fjármál sín.

Árni Páll óhress yfir stöðu Íslands

Efnahags- og viðskiptaráðherra segir að það sé mikið áhyggjuefni að erlent tryggingafyrirtæki telji hvergi áhættusamara að fjárfesta meðal vestrænna ríkja en hér á landi. Hann segir að menn þurfi að komast yfir það gríðarlega tilfinningarót sem virðist hertaka marga í hvert skipti sem útlendingur lætur sér detta í hug að fjárfesta á Íslandi.

Vilja niðurskurð og betri skattheimtur í Grikklandi

Grikkland þarf betri skattheimtur og meiri niðurskurð, en ekki skattahækkanir. Með því má koma í veg fyrir frekari áföll í efnahagslífi landsins. Þetta kom fram í máli forystumanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag.

Obama tilkynnti niðurskurðartillögur í dag

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur kynnt áætlanir sínar til þess að draga úr fjárlagahalla Bandaríkjanna og örva hagvöxt. Á fundi í Hvíta húsinu í dag sagði hann að nauðsynlegt væri að skerða framlög til heilbrigðismála en hann sagði jafnframt að hinir auðugu yrðu að greiða hærri skatta.

Íslandspóstur kaupir Sendil

Íslandspóstur hefur fjárfest í hugbúnaðarfyrirtækinu Sendill.is, sem sérhæfir sig í lausnum og þjónustu við rafræna viðskiptaferla og skeytamiðlun.

Mikil tækifæri í kvikmyndaiðnaði - hver króna fimmfaldast í geiranum

"Það eru gífurlega mikil tækifæri fólgin í þessari atvinnugrein og hagkvæm fjárfesting fyrir þjóðarbúið og hinn veikburða ríkissjóð," segir Ágúst Einarsson prófessor og fyrrverandi alþingismaður, sem hefur skrifað bók um hagfræði kvikmynda. Hún ber nafnið Hagræn áhrif kvikmyndalistar og er fyrsta bók sinnar tegundar á íslensku.

Eignir Kaupþings jukust um 100 milljarða á fyrri hluta ársins

Eignir Kaupþings jukust um tæplega 100 milljarða króna eða um rúm 12% á fyrri hluta árs 2011 samkvæmt tilkynningu frá skilanefnd bankans. Sé leiðrétt fyrir áhrifum vegna 5,5% gengislækkunnar krónunnar á tímabilinu jókst verðmat eigna Kaupþings um 48 milljarða króna á tímabilinu.

Birgir Jónsson ráðinn forstjóri Iceland Express

Birgir Jónsson hefur verið ráðinn forstjóri Iceland Express eftir að samkomulag var gert milli félagsins og Matthíasar Imsland um starfslok hans hjá félaginu samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Segir Grikki gerða að blórabögglum

Gríski fjármálaráðherrann Evangelos Venizelos fundar síðar í dag með fulltrúum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en hann er harðorður í garð stofnananna í fjölmiðlum í dag og segir að verið sé að nota Grikki sem blóraböggul og að harðari aðgerðir gegn þeim miði einungis að því að fela lélegan árangur forsvarsmanna þeirra í að takast á við krísuna.

Sjá næstu 50 fréttir