Viðskipti innlent

Vextir ekki hækkaðir vegna minni verðbólgu og styrkingu krónunnar

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri mynd úr safni
Seðlabanki Íslands ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum þvert á spár greiningaraðila. Minni verðbólga í ágúst en búist hafði verið við, áframhaldandi styrking gengis krónunnar og lakari horfur í heimsbúskapnum eru meðal ástæða þess að vextir voru ekki hækkaðir segir Seðlabankastjóri.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti um ákvörðun sína í morgun en áður höfðu helstu greiningaraðilar spáð hækkun stýrivaxta um 0,25 til 0,5 prósentustig. Nefndin segir nýjustu hagtölur staðfesta uppfærða spá bankans frá því í ágúst, það er að vöxtur framleiðslu og atvinnu sé hafinn og horfur séu á að verðbólga muni um nokkurt skeið verða töluvert yfir verðbólgumarkmiði bankans. Því sé við hæfi að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar.

Þá segir nefndin að hræringar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vísbendingar um veikari alþjóðlegan hagvöxt hafi skapað óvissu um innlendan hagvöxt og verðbólguhorfur. Hætta á neikvæðum áhrifum á innlendan þjóðarbúskap hafi því aukist frá síðasta fundi peningastefnunefndar í ágúst.

Verðbólguhorfur benda þó til þess að til lengri tíma litið sé við hæfi að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar, eins og byrjað var á í ágúst. Lítil hætta er á að hófleg vaxtahækkun stöðvi efnahagsbatann. Minni verðbólga í ágúst en búist hafði verið við, áframhaldandi styrking gengis krónunnar og lakari horfur í heimsbúskapnum gera peningastefnunefndinni hins vegar kleift að halda vöxtum óbreyttum nú.

Nefndin telur enn að til þess að sporna gegn aukinni verðbólgu kunni að vera nauðsynlegt að hækka vexti frekar. Ákvarðanir í peningamálum munu þó sem fyrr taka mið af nýlegri þróun og horfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×