Viðskipti innlent

Eignir Kaupþings jukust um 100 milljarða á fyrri hluta ársins

Kaupþing.
Kaupþing.
Eignir Kaupþings jukust um tæplega 100 milljarða króna  eða um rúm 12% á fyrri hluta árs 2011 samkvæmt tilkynningu frá skilanefnd bankans. Sé leiðrétt fyrir áhrifum vegna 5,5% gengislækkunnar krónunnar á tímabilinu jókst verðmat eigna Kaupþings um 48 milljarða króna á tímabilinu.

Óveðsettar eignir bankans eru metnar á 888 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýjum fjárhagsupplýsingum í skýrslu fyrir kröfuhafa Kaupþings.

Mesta aukningin var í flokki lausafjármuna. Handbært fé Kaupþings stóð í 319 milljörðum króna í lok árshelmingsins og jókst um 88 milljarða króna frá upphafi árs, einkum vegna afborgana af lánasafni Kaupþings. Skuldabréfasafn Kaupþings stóð í 27 milljörðum króna í lok tímabilsins og jókst um 20 milljarða króna á tímabilinu. Þá jókst verðmæti eignarhlutar Kaupþings í dótturfélögum sem stóð í 134 milljörðum í lok tímabilsins um 5 milljarða króna.

Aðrir eignaflokkar, svo sem lán, afleiður og hlutabréfastöður drógust saman á fyrstu sex mánuðum ársins.

Mesta raunhækkun einstakra eignaflokka var á virði lánasafns Kaupþings sem jókst um 12,5 milljarða króna á tímabilinu.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um uppgjör bankans á heimasíðu hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×