Viðskipti innlent

Þrýstingur eykst á Grikki

Þorbjörn Þórðarson skrifar
George Papandreu forsætisráðherra þarf að skera enn meira niður og brúa fjárlagahallann.
George Papandreu forsætisráðherra þarf að skera enn meira niður og brúa fjárlagahallann.
Grikkir eru undir miklum þrýstingi til að skera niður og brúa fjárlagahallann á ríkissjóði en í húfi er 8 milljarða evra fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Um er að ræða jafnvirði 1.200 milljarða íslenskra króna.

Þessir peningar eiga að standa straum af lánum gríska ríkisins sem fallin eru á gjalddaga og öðrum útgjöldum.

Grikkir eru undir miklum þrýstingi að rétta af tveggja milljarða evra fjárlagagat til að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins fyrir fjárhagsaðstoð.

Embættismenn frá bæði ESB og AGS eru nú í Aþenu til að fylgjast með því að Grikkir uppfylli skilyrði aðstoðarinnar en gríska ríkið er upp á náð og miskunn þeirra komið.

Ríkisstjórn gríska ríkisins mun funda síðar í dag til að hraða niðurskurðatillögðum og aðgerðum til að sporna við útgjöldum, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.

Fyrirhugaðar aðgerðir grískra stjórnvalda valda borgurum landsins vaxandi áhyggjum en margir óttast að niðurskurðarhnífurinn lendi illa á grunnstoðum samfélagsins. Mikil mótmæli hafa verið í Grikklandi frá því að fyrir lá að skera þyrfti niður til að uppfylla skilyrði AGS og ESB.

Vandi Grikkja veldur enn óróa á hlutabréfamörkuðum í Evrópu en helstu hlutabréfavísitölur álfunnar lækkuðu í viðskiptum snemma í morgun. Fjárfestar bíða spenntir eftir áformum grískra stjórnvalda sem búist er við að verði kynntar að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. Þá horfa fjárfestar í Evrópu einnig til aðgerða bandaríska seðlabankans til að örva hagvöxt þar í landi en tveggja daga fundur bankans stendur nú yfir og hyggst bankinn tilkynna um aðgerðir að honum loknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×