Viðskipti innlent

Staða lífeyrissjóðanna batnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ávöxtun lífeyrissjóðanna umfram verðbólgu var 2,65% í fyrra samanborið við 0,34% á árinu 2009. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðin 5 ár var -1,6% og meðaltal síðastliðna 10 ára var 2,2%. Þetta kemur fram í skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir síðasta ár. Skýrslan var birt á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins í dag. Fjármálaeftirlitið segir að raunávöxtun sjóðanna, það er ávöxtun umfram verðbólgu, fari því batnandi þrátt fyrir að margir sjóðir glími enn við eftirköst bankahrunsins.

Heildareignir lífeyrissjóðanna námu tæplega 1.910 milljörðum króna í lok síðasta árs samanborið við um 1.775 milljarða í árslok 2009. Nemur aukningin um 7,6% sem samsvarar jákvæðri raunaukningu upp á 5% miðað við vísitölu neysluverðs.

Iðgjöld lífeyrissjóðanna hækkuðu um tæp 3% á milli ára eða úr 107 milljörðum króna í árslok 2009 í rúmlega 110 milljarða króna í lok síðasta árs. Gjaldfærður lífeyrir ásamt útgreiðslu séreignarsparnaðar var rúmlega 71 milljarður króna á síðasta ári en var 76 milljarðar króna árið 2009. Útgreiðslur vegna tímabundins bráðabirgðaákvæðis námu tæpum 15 milljörðum króna í fyrra samanborið við tæpa 22 milljarða króna árið áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×