Viðskipti innlent

Mikil tækifæri í kvikmyndaiðnaði - hver króna fimmfaldast í geiranum

Boði Logason skrifar
Ágúst Einarsson, prófessor á Bifröst
Ágúst Einarsson, prófessor á Bifröst mynd úr safni
"Það eru gífurlega mikil tækifæri fólgin í þessari atvinnugrein og hagkvæm fjárfesting fyrir þjóðarbúið og hinn veikburða ríkissjóð," segir Ágúst Einarsson prófessor og fyrrverandi alþingismaður, sem hefur skrifað bók um hagfræði kvikmynda. Hún ber nafnið Hagræn áhrif kvikmyndalistar og er fyrsta bók sinnar tegundar á íslensku.

Í bókinni er greint frá þróun kvikmynda sem hluta af menningu og skapandi atvinnugreinum. Meðal helstu niðurstaðna bókarinnar er að skynsamlegt og ábatasamt sé að veita meira fjármagni til kvikmyndagerðar og efla menntun innan greinarinnar. Þá segir einnig að hver króna sem opinberir aðilar veita í kvikmyndaiðnað skilar sér í fimmfalt hærri fjárhæð til hins opinbera.

Hann segist hafa skoðað allar hagstærðir í tengslum við kvikmyndaiðnaðinn og segir það vera svo að hið opinbera sé að veita 640 milljónir á ári til geirans, annars vegar með framlögum í kvikmyndasjóð og hinsvegar í endurgreiðslu kostnaðar í sambandi við kvikmyndagerð.

„En hinsvegar hefur ríkisvaldið tekjur af kvikmyndaiðnaði upp á 3400 milljónir á ári og það er vegna þess að það eru skatttekjur í greininni sem eru umtalsverðar. Það vinna 750 manns í kvikmyndaiðnaði og veltan er rúmlega 10 milljarðar," segir hann og bætir við að kvikmyndir og myndrænt efni hafi mjög mikil áhrif á ákvarðanir ferðamanna sem koma til landsins. „Þeir verja miklu fé hér og greiða mikið af sköttum og ýmsu sem renna til ríkisins, þetta eru bein áhrif kvikmynda til viðbótar. Þetta eru ótrúlega tölur sem ríkið er að hagnast á umsvifum í kvikmyndaiðnaði," segir hann.

Hann segist alltaf haft gaman af kvikmyndum og datt í hug að fara skoða hagfræðina í kringum kvikmyndaiðnaðinn meira. „Það var tímabært að fara vel ofan í þessi mál og mín megin niðurstaða er sú að það eru mjög mikil tækifæri fólgin í þessari atvinnugrein."

Bókin er um 250 blaðsíður og er með fjölda mynda og taflna. Í henni eru einnig stutt æviágrip þrjátíu og fimm innlendra og erlendra einstaklinga sem hafa sett svip sinn á kvikmyndir síðastliðin 100 ár. Ágúst hefur gefið út margar bækur þar á meðal Hagræn áhrif tónlistar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×