Viðskipti innlent

Kreditkort brýtur gegn ákvæðum um neytendalán og eftirlit

Kreditkort.
Kreditkort.
Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest úrskurð Neytendastofu um að Kreditkort bryti bæði gegn ákvæðum laga um neytendalán og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með greiðsludreifingunni.

Neytendastofa gerir ekki athugasemdir við að neytendum sé boðið upp á þessa leið en stofnunin telur greiðsludreifinguna vera neytendalán sem gera verður sjálfstæðan skriflegan samning um þar sem fram kæmu allar þær upplýsingar sem lánveitandi á að veita neytanda skv. lögum um neytendalán.

Kreditkort ætlar að breyta fyrirkomulagi við afgreiðslu greiðsludreifingar í samræmi við niðurstöðu áfrýjunarnefndar neytendamála, þess efnis að gera þurfi sjálfstæðan skriflegan samning um slíka þjónustu til lengri tíma en þriggja mánaða þar sem fram komi allar upplýsingar sem lánveitandi á að veita neytanda samkvæmt lögum um neytendalán.

Í tilkynningu frá Kreditkortum hefur þessi niðurstaða í för með sér verulegt óhagræði fyrir neytendur því allir kortaútgefendur MasterCard og Visakorta hafa boðið korthöfum upp á framkvæmd greiðsludreifingar símleiðis, ekki bara Kreditkort.

Svo segir í tilkynningunni:

„Fyrirgreiðsla með þessum hætti hefur tíðkast í 20 ár og við höfum litið svo á að með því væri verið að veita viðskiptavinum greiðslufrest. Slík þjónusta verður nú ekki lengur í boði símleiðis og munu korthafar framvegis þurfa að ganga frá skriflegum greiðsludreifingarsamningum, með tilheyrandi umstangi og kostnaði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×