Fleiri fréttir

Robben áfram hjá Chelsea

Hollenski vængmaðurinn Arjen Robben hefur fullvissað stuðningsmenn Chelsea um að hann verði áfram í herbúðum enska liðsins á næstu leiktíð, en hann hefur lengi verið orðaður við sölu frá félaginu. Robben segist enn fremur hafa fulla trú á að hann verði kominn aftur í sitt besta form áður en næsta tímabil hefst.

Bellamy þráir að spila úrslitaleikinn

Craig Bellamy, hinn velski framherji Liverpool, segist munu verða eyðilagður leikmaður, fari svo að hann fái ekki að taka neinn þátt í úrslitaleiknum við AC Milan í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið. Bellamy hefur ekki verið inn í myndinni hjá stjóranum Rafa Benitez síðustu vikur.

Shevchenko vill spila í Bandaríkjunum

Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko hefur greint frá því að hann eigi þann draum heitastan að geta spilað í bandarísku atvinnumannadeildinni áður en ferill hans er á enda. Shevchenko segir mikla uppbyggingu vera að eiga sér stað þar vestra og hefur sóknarmaðurinn mikinn áhuga á að taka þátt í henni.

Malouda bestur í Frakklandi

Florent Malouda, leikmaður Lyon, hefur verið valinn besti leikmaður frönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, en það eru samtök leikmanna sem standa að hinu árlega kjöri. Gerard Houllier var valinn besti þjálfarinn.

Carrick fagnar komu Hargreaves

Michael Carrick, enski miðjumaðurinn hjá Man. Utd., segist munu bjóða landa sinn Owen Hargreaves velkominn til félagsins með opnum örmum, en Hargreaves mun líklega skrifa undir samning við ensku meistaranna síðar í vikunni. Carrick óttast ekki samkeppnina sem felst í komu Hargreaves til liðsins.

Robson vill stýra Sheffield Utd.

Bryan Robson, fyrrum þjálfari Middlesbrough og WBA, hefur staðfest að hann hafi mikinn áhuga á að taka við stjórn Sheffield United og er búist við því að hann verði formlega kynntur sem næsti knattspyrnustjóri liðsins á næstu tveimur sólarhringum.

Hvatningarræða Drogba gerði útslagið

Þótt að Didier Drogba hafi skorað markið sem réð úrslitum í bikarúrslitaleik Chelsea og Man. Utd. um helgina var það ekki síður ávarp hans til leikmanna fyrir leikinn sem hafði hvað mest áhrif á niðurstöðu leiksins, að því er fyrirliðinn John Terry heldur fram. Drogba hvatti leikmenn til að leggja sig alla fram fyrir hvorn annan.

Romario skoraði 1000. markið

Brasilíski framherjinn Romario náði loksins að skora sitt 1000. mark á ferlinum í gær þegar lið hans Vasco de Gama bar sigurorð af Recife í brasilísku úrvalsdeildinni í gær. Hinn 41 árs gamli Romario setti stefnuna á að skora 1000 mörk fyrir nokkrum árum og hefur nú loksins náð sínu æðsta markmiði.

Barcelona hrökk í gang

Leikmenn Barcelona sýndu mátt sinn gegn Atletico Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið gjörsigraði andstæðinga sína með sex mörkum gegn engu á útivelli. Eiður Smári Guðjohnsen lék síðustu 10 mínútur leiksins. Hin tvö liðin í toppbaráttunni, Sevilla og Real Madrid, unnu einnig góða útisigra.

FH vann í Keflavík

Íslandsmeistarar FH eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðir Landsbankadeildar karla í knattspyrnu en í kvöld vann liðið góðan sigur á Keflavík á útivelli, 2-1. Öll mörkin komu í síðari hálfleik en Matthías Guðmundsson skoraði sigurmarkið á 80. mínútu.

Víkingur vann í Laugardalnum

Víkingur vann frækinn 2-0 útisigur á Fram í Landsbankadeildinni í kvöld en KR-ingar náðu aðeins jafntefli gegn Blikum í Frostaskjólinu. Í Keflavík eigast við heimamenn og Íslandsmeistarar FH og er staðan enn markalaus þegar nokkuð er liðið á síðari hálfleik.

KR yfir í hálfleik gegn Breiðablik

Eitt mark hefur verið skorað í fyrri hálfleik í þeim leikjum Landsbankadeildar karla sem fram fara í kvöld. Sigmundur Kristjánsson gerði það fyrir KR gegn Breiðablik en markið skoraði hann strax á 7. mínútu. Enn er markalaust er á Laugardalsvelli þar sem Framarar og Víkingar eigast við.

Hefndin drífur leikmenn Milan áfram

Ryan Giggs, leikmaður Man. Utd., segir ómögulegt að spá fyrir um hver muni standa uppi sem sigurvegari í Meistaradeild Evrópu í ár. Giggs hallast þó frekar að sigri AC Milan gegn Liverpool, þar sem leikmenn ítalska liðsins þrái ekkert heitar en að ná fram hefndum frá því í Istanbúl fyrir tveimur árum.

Valur vann Fylki í Árbænum

Tvö mörk Valsmanna á síðasta stundarfjórðungnum tryggðu liðinu frækinn 2-1 útisigur á Fylki í Landsbankadeild karla. Það var danski leikmaðurinn Rene Carlsen sem skoraði sigurmarkið á 83. mínútu en áður hafði Halldór Hilmisson komið Fylki yfir. Annar Dani í lið Vals, Dennis Bo Mortensen, hafði áður jafnað metin.

Theódór Elmar spilaði allan leikinn

Theódór Elmar Bjarnason, unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu, spilaði allan leikinn fyrir lið sitt Celtic í skosku úrvalsdeildinni þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Hibernain í dag. Þetta var í fyrsta sinn sem Theódór Elmar kemur við sögu hjá aðalliði Celtic í úrvalsdeildinni.

Yrði fínt að fara í vítaspyrnukeppni

Xabi Alonso, hinn spænski miðjumaður Liverpool, segir að leikmenn liðsins vilji gjarnan að úrslitaleikurinn gegn AC Milan í Meistaradeildinni ráðist í vítaspyrnukeppni. Alonso segir að markvörðurinn Pepe Reina sé besti vítabani í heiminum í dag og með hann á milli stanganna geti ekki mörg lið staðist Liverpool snúning í vítaspyrnukeppni.

Grétar lék allan leikinn í sigri AZ

Grétar Rafn Steinsson og félagar í AZ Alkmaar í Hollandi hafa 2-1 forystu eftir fyrri viðureign sína við Ajax um laust sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Grétar lék allan leikinn fyrir AZ í dag en framherjinn Shota Arveladze skoraði sigurmarkið á 90. mínútu.

Gallas: Það vantar reynslu í Arsenal

Franski varnarmaðurinn William Gallas hjá Arsenal segir að liðinu skorti sárlega reynslu í leikmannahópinn til að ná betri árangri en þeim sem liðið náði á þessu tímabili. Gallas er ómyrkur í máli og segir liðið ekki hafa tekið neinum framförum á nýafstaðinni leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.

Segir Stuttgart eiga titilinn skilinn

Armin Veh, þjálfari nýkrýndra Þýskalandsmeistara Stuttgart, segir fráleitt að halda því fram að lið hans eigi titilinn ekki skilið. Leikmenn og forráðamenn Schalke létu hafa eftir sér eftir lokaumferðina í gær að lið sem væri á toppnum í þrjár vikur af 34 vikna tímabili ætti ekki skilið að standa uppi sigurvegari. Schalke var á toppi deildarinnar í 15 vikur í vetur.

Mourinho: Mikel var kóngurinn

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að frammistaða nígeríska miðjumannsins John Obi Mikel í bikarúrslitaleiknum gegn Chelsea í gær hafi verið ótrúleg og að “strákurinn” hafi verið kóngurinn í leiknum. Mourinho hélt einnig áfram að tala um hvernig tímabilið hjá liði sínu hefði getað orðið án meiðslavandræða.

Ballack og Shevchenko verða ekki seldir

Peter Kenyon, stjórnarformaður Chelsea, segir að félagið muni losa sig við þrjá leikmenn í sumar og að þrír til fjórir leikmenn munu koma til liðsins í staðinn. Að sögn stjórnarformannsins mun líklega enginn þeirra þó vera stórstjarna og þá staðfesti hann að hvorki Andriy Shevchenko né Michael Ballack væru á leið frá félaginu.

Beckenbauer staðfestir brottför Hargreaves

Franz Beckenbauer, forseti Bayern Munchen í Þýskalandi, tilkynnti stuðningsmönnum liðsins í morgun að enski landsliðsmaðurinn Owen Hargreaves væri á förum frá liðinu til Englandsmeistara Manchester United. Hann staðfesti þar með fréttirnar sem birtust í þýskum fjölmiðlum í gær.

Allt frágengið á milli Bayern og Man. Utd.?

Allt útlit er fyrir að Owen Hargreaves verði orðinn leikmaður Manchester United innan fárra daga, að því er þýskir fjölmiðlar halda fram. Sagt er að Bayern Munchen hafi samþykkt 17 milljón punda tilboð Man. Utd. í enska landsliðsmanninn og að það sé aðeins formsatriði fyrir hann að ná samkomulagi við sitt nýja félag.

Zenden meiddur – Kewell í byrjunarliðið?

Hollenski vængmaðurinn Boudewijn Zenden styðst nú við hækjur eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í æfingabúðum Liverpool í La Manga á Spáni, þar sem liðið undirbýr sig nú af kappi fyrir úrslitaleikinn gegn AC Milan í Meistaradeildinni á miðvikudag. Ólíklegt er að Zenden verði orðinn leikfær og því hafa dyrnar í byrjunarliðið opnast fyrir Harry Kewell.

Finnan fær nýjan samning hjá Liverpool

Írski varnarmaðurinn Steve Finnan hjá Liverpool mun væntanlega skrifa undir nýjan samning við félagið fljótlega eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í næstu viku. Finnan er einn af fimm leikmönnum sem þjálfarinn Rafael Benitez hefur boðið nýjan samning, en talið er að nokkrar breytingar verði á leikmannahóp Liverpool í sumar.

Mourinho: Áttum sigurinn skilinn

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, sagði að sínir menn hefðu átti sigurinn á Man. Utd. í bikarkeppninni í dag skilinn, bæði vegna þess að þeir hafi verið betri í leiknum en ekki síður vegna þess hvernig þeir hafa svarað mótlætinu sem hann telur liðið hefur lent í á tímabilinu – með því að vinna tvo titla.

Ferguson: Leikmenn voru of þreyttir

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagði að allur sá fjöldi leikja sem sitt lið hefur spilað í vetur hafi átt stóran þátt í tapi liðsins gegn Chelsea í úrslitaleiknum í dag. Ferguson fannst einstaka leikmenn sínir þreyttir eftir langt og strangt tímabil og að liðið hefði að þeim sökum ekki verið upp á sitt besta.

Kaka: Mikilvægasti leikurinn á ferlinum

Brasilíski miðjumaðurinn Kaka hjá AC Milan segir að leikurinn gegn Liverpool í Meistaradeildinni á miðvikudaginn sé sá mikilvægasti hingað til á sínum ferli. Kaka var í liðinu sem beið lægri hlut gegn Liverpool í úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum og vill með engu móti endurupplifa þá tilfinningu.

Stuttgart meistari í Þýskalandi

Stuttgart varð í dag meistari í þýsku knattspyrnunni en þá sigraði liðið Energie Cottbus, 2:1, á heimavelli í lokaumferð deildarinnar. Stuttgart nægði að fá eitt stig fyrir leikinn til að tryggja sér meistaratitilinn en eftir slæma byrjun í dag, þar sem Cottbus náði forystu eftir 19. mínútna leik, náðu heimamenn að svara með tveimur mörkum.

Chelsea enskur bikarmeistari

Markahrókurinn Didier Drogba var hetja Chelsea þegar hann skoraði sigurmark liðsins gegn Man. Utd. þegar 4 mínútur voru eftir af úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í dag. Þetta er fyrsti sigur Chelsea í ensku bikarkeppninni frá því að Jose Mourinho tók við stjórn liðsins, en fyrr í vetur hafði liðið sigrað enska deildarbikarinn.

Framlengt hjá Chelsea og Man. Utd.

Leikmönnum Chelsea og Man. Utd. hefur ekki tekist að skora í venjulegum leiktíma í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar og því þarf að framlengja leikinn. Verði ekkert mark skorað í framlengingunni munu úrslitin ráðast í vítaspyrnukeppni.

Markalaust í hálfleik á Wembley

Staðan er markalaus þegar flautað hefur verið til hálfleiks í bikarúrslitaleik Chelsea og Manchester United á Wembley í Lundúnum. Leikurinn hefur verið heldur bragðdaufur, leikmenn eru mjög varkárir í öllum sínum aðgerðum og nánast engin opin færi hafa litið dagsins ljós. Leikurinn er í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Sýn.

Enginn Cole í liði Chelsea

Úrslitaleikur Manchester United og Chelsea í ensku bikarkeppninni er hafinn og er í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Sýn. Athygli vekur að Wayne Bridge er tekinn fram yfir Ashley Cole í byrjunarlið Chelsea, rétt eins og enskir fjölmiðlar höfðu spáð. Annars er fátt sem kemur á óvart í uppstillingu liðanna.

Vidic: Ég er enginn morðingi

Nemanja Vidic, varnarmaður Manchester United, segist alls ekki vera neinn morðingi, en það er þó ekki svo að hann hafi raunverulega verið ásakur um slíkt athæfi. Vidic er að neita fullyrðingum sem fram koma í söng stuðningsmanna Man. Utd. um Vidic, en textinn í laginu endar á textabrotinu: "Hann mun myrða þig."

Hildebrand dreymir um tvöfaldan sigur

Timo Hildebrand, markvörður og fyrirliði Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni, býst við að spila sínar erfiðustu 90 mínútur á ferlinum gegn Energie Cottbus í lokaumferð deildarinnar í dag. Stuttgart nægir jafntefli til að tryggja sér þýska titilinn og segir Hildebrand það vera árangur sem engum hefði órað fyrir í upphafi tímabilsins.

Xavi tekur undir ummæli Eiðs Smára

Xavi, spænski landsliðsmaðurinn hjá Barcelona, hefur tekið undir Eiðs Smára Guðjohnsen frá því fyrr í vetur og kennir hann slöku andrúmslofti í herbúðum liðsins um fremur válegt gengi liðsins á þessari leiktíð. Xavi segir, rétt eins og Eiður Smári, að leikmenn leggi sig ekki nægilega mikið fram.

Treystir Cole ekki í slaginn gegn Ronaldo

Fjölmiðlar í Englandi greina frá því nú í hádeginu að Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hafi ákveðið að taka Wayne Bridge fram yfir Ashley Cole í stöðu vinstri bakvarðar, þar sem hann telji Cole ekki í nægilega góðu formi til að ráða við Cristiano Ronaldo.

Fjögurra marka tap gegn Englendingum

Íslenska landsliðið tapaði í gær fyrir Englandi í æfingaleik sem fór fram á Roots Hall, heimavelli Southend. Leiknum lauk með 4-0 sigri Englendinga en tvö mörk voru skoruð í báðum hálfleikjum.

Mourinho: Látið börnin mín í friði

Jose Mourinho þjálfari Chelsea sendi blaðamönnum breska götublaðsins The Sun tóninn á blaðamannafundi í gær en þar var hann mættur til að ræða um bikarúrslitaleik Chelsea og Man Utd sem fram fer á laugardaginn.

Roma vann ítalska bikarinn

Roma varð í dag ítalskur bikarmeistari eftir 2-1 tap gegn Inter Milan í síðari úrslitaleik liðanna í Mílanó. Roma vann 5-2 stórsigur í fyrri leiknum og vann því samanlagt 8-3. Inter komst í 2-0 á sex mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks með mörkum frá Cruz og Crespo, en Ivan Cordoba var vikið af leikvelli á 71. mínútu og eftir það minnkaði Simone Perrotta muninn fyrir Roma og tryggði liðinu bikarinn.

Aulas tekur við af Dein hjá G-14

Jean-Michel Aulas, stjórnarformaður franska knattspyrnufélagsins Lyon, var í gær ráðinn forseti G-14 í stað David Dein sem lét af störfum hjá Arsenal á dögunum. G-14 eru hagsmunasamtök 18 stærstu knattspyrnufélaga Evrópu og á fundi samtakanna í Glasgow í gær var ákveðið að Aulas tæki við forsetaembættinu. Lyon var tekið inn í G-14 árið 2002 líkt og Arsenal þegar fjórum félögum við hin upprunalegu 14 var hleypt inn í samtökin.

Juventus getur tryggt sig í A-deildina um helgina

Stórveldið Juventus á Ítalíu getur tryggt sér sæti meðal þeirra bestu á ný með útsigri á Arezzo í ítölsku B-deildinni um helgina, en þá verða reyndar þrjár umferðir eftir af keppninni. Það verður því aldrei þessu vant leikur í B-deildinni sem verður í sviðsljósinu á Ítalíu um helgina, því staða mála á toppnum í A-deildinni er þegar ráðin.

Kaka og Ronaldinho verða með gegn Englendingum

Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, hefur valið bæði Kaka og Ronaldinho í hópinn sem mætir Englendingum í fyrsta alvöru landsleiknum sem spilaður verður á nýja Wembley leikvangnum í Lundúnum þann 1. júní. Þeir félagar hafa þó ákveðið að gefa ekki kost á sér í Suður-Ameríkukeppnina í sumar vegna álags undanfarna mánuði. Hér fyrir neðan má sjá leikmannahóp Brassa sem mætir Englendingum.

Ranieri neitar viðræðum við Manchester City

Ítalski þjálfarinn Claudio Ranieri hjá Parma hefur neitað því að hafa verið í viðræðum við Manchester City um að verða eftirmaður Stuart Pearce í stjórastólnum hjá félaginu. Ranieri hefur unnið gott starf hjá Parma í vetur, en hann tók við liðinu á botninum og er nú í góðri leið með að bjarga því frá falli. Hann hafði þar áður verið í tveggja ára fríi frá knattspyrnunni en stýrði Chelsea áður en Jose Mourinho tók þar við.

Sjá næstu 50 fréttir