Fótbolti

Fjögurra marka tap gegn Englendingum

Íslenska landsliðið fagnar hér marki í leik á Laugardalsvellinum en ekki tókst liðsmönnum að skora gegn Englandi í gær.
Íslenska landsliðið fagnar hér marki í leik á Laugardalsvellinum en ekki tókst liðsmönnum að skora gegn Englandi í gær. fréttablaðið/e. ól.

Íslenska landsliðið tapaði í gær fyrir Englandi í æfingaleik sem fór fram á Roots Hall, heimavelli Southend. Leiknum lauk með 4-0 sigri Englendinga en tvö mörk voru skoruð í báðum hálfleikjum.

„Þetta var erfiður leikur en enska liðið setti okkur undir mikla pressu megnið af honum,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari eftir leik. „Svo skora þær sitt annað mark á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks og það slær okkur út af laginu.“

England er nú að undirbúa sig fyrir HM í Kína í september og stillti upp sínu sterkasta liði í gær. „Ég held að England muni gera frábæra hluti á HM. Þetta lið ber til dæmis af þeim fjórum sem við mættum á Algarve Cup fyrr í vetur.“

Ísland hefur leik í undankeppninni fyrir EM 2009 gegn Grikkjum ytra í lok mánaðarins.

„Þar verður vonandi annað uppi á teningnum því þar ætlum við okkur að sækja. En við mætum Frökkum síðar í sumar og nýtist þessi leikur vel fyrir hann enda Frakkar með álíka sterkt lið og England. Við sáum ýmis mistök í okkar varnarleik í kvöld sem við getum nú leiðrétt og þetta var virkilega góð reynsla fyrir stelpurnar okkar að mæta svo góðum andstæðingi nú,“ sagði Sigurður Ragnar.

Tvo öfluga leikmenn vantaði í íslenska liðið í gær, þær Ásthildi Helgadóttur fyrirliða og Dóru Stefánsdóttur en báðar leika þær með Malmö í sænsku úrvalsdeildlinni. Ásthildur er meidd en Dóra ákvað frekar að berjast fyrir sæti sínu í Malmö og spila bikarleik með liðinu í vikunni.- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×