Fleiri fréttir

Evrópuríki virða ekki Kyoto-bókun

Flest Evrópuríki hafa trassað að fara að skilmálum Kyoto-bókunarinnar. Þetta segir virtur breskur fræðimaður. Hann segir að tíu af fimmtán Evrópusambandslöndum muni ekki ná markmiðum bóknunarinnar um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda nema gripið verði til róttækra aðgerða.

Vatikanið hefur varað kaþólskar konur við að giftast múslimum

Vatíkanið hefur varað kaþólskar konur við því að giftast múslimum. Í tveimur skjölum sem kardínálinn Stephen Hamao hefur sent frá sér, segir hann frá slæmri upplifun evrópskra kvenna sem giftast múslimum. Vandamálin stigmagnist síðan ef pörin flytja til íslamsks ríkis. Kaþólska kirkjan hefur hingað til hvatt til aukinna samskipta milli fólks ólíkrar trúar og því þykir tónninn í bréfi kardínálans óvenju hvass.

Tyrkneska lögreglan handtekur fimm menn vegna gruns um að hafa ætlað að myrða landsstjóra Van héraðs

Tyrkneska lögreglan hefur handtekið fimm menn sem grunaðir eru um að hafa ætlað að ráða landstjóra héraðsins Van af dögum á gamlársdag. Skammbyssa, sprengiefni og 200 byssukúlur fundust á heimilum hinna grunuðu. Mikil ófriðaralda hefur verið í austur- og suðurhluta Tyrklands undanfarið eitt og hálft ár en aðskilnaðarsinnar í Kúrdíska Verkamannaflokknum hafa staðið að fjölmörgum árásum í landinu og eru skilgreindir sem hryðjuverkasamtök af Evrópusambandinu og Bandaríkjastjórn.

Ísraelar gerðu skotárás á norðurhluta Gaza í nótt

Ísraelar gerðu enn eina skotárásina á norðurhluta Gaza í nótt. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi fallið en ein sprengjan lenti á byggingu í eigu Mahmud Abbas, leiðtoga Palestínumanna. Árásin kemur í kjölfar eldflaugaárása Palestínumanna á Ísrael en Ísraelsstjórn hyggst girða af stórt svæði sem muni gera Palestínumönnum erfiðara fyrir að skjóta eldflaugum yfir til Ísrael.

Uppreisnarmenn sprengdu upp gasleiðslu í nágrenni Baghdad

Uppreisnarmenn sprengdu upp enn eina gasleiðsluna nálægt borginni Samara sem er í um eitt hundrað kílómetra fjarlægð frá Baghdad, höfuðborg Íraks í gær. Gasleiðslan nær frá Baiji til borgarinnar Dora en árásum á bæði gasleiðslur og olíuleiðslur hefur farið fjölgandi að undanförnu og er talið að Al Qaida hafi verið þarna að verki sem og svo oft áður.

Leikarinn Vincent Schiavelli er látinn

Leikarinn Vincent Schiavelli er látinn 57 ára að aldri. Banamein hans var lungnakrabbamein. Meðal frægra kvikmynda sem Schiavelli lék í eru One Flew Over the Cuckoo's Nest, Ghost, Amadeus, Batman Returns og The People vs. Larry Flynt. Auk þess að leggja stund á leiklist þá skrifaði Schiavelli þrjár matreiðslubætur og margar tímarits- og blaðagreinar um mat.

Rólegt hjá lögreglunni um allt land

Rólegt var í umdæmum lögreglunnar um allt land þrátt fyrir aftakaveður víða um land. Engin meiriháttar óhöpp voru tilkynnt og er greinilegt að skemmtanaglaðir Íslendingar hafi tekið nóttinni rólega og má slá því föstu að veðrið hafi haft þar einhver áhrif. Einn maður var þó handtekinn á Akureyri fyrir ölvun og gistir hann nú fangageymslu.

Um 70 manns veikir eftir að glæpagengi lét gas leka í verslun í St. Pétursborg

Um 70 manns eru veikir á sjúkrahúsum St. Pétursborgar í Rússlandi eftir að glæpagengi lét gas leka um loftræstikerfi Maksidom verslunarinnar þar í borg í gær. Gasið var látið leka þegar mjög annasamt var að gera í búðinni en fjarstýrður búnaður fannst á staðnum og segir lögreglan að ljóst sé að ekki var um slys að ræða. Árásir á fyrirtæki í Rússlandi eru tíðar en talið er að einhver samkeppnisaðilinn eða mafían hafi verið að verki.

Spænska lögreglan fann 15 tonn af kannabisefnum í Madrid

Spænska lögreglan gerði í gær 15 tonn af kannabisefnum upptæk í nágrenni Madridar, höfuðborgar Spánar. Tíu hafa verið handteknir vegna málsins en glæpamennirnir voru allir Marokkóbúar utan eins Spánverja. Lögreglan á Spáni hefur gert fjölda rassía á undanförnum mánuðum en í október lagði hún hald á 27 tonn af kannabisefnum.

Kona lést og sex særðust í skotárás á vinsælli verslunargötu í Toronto í Kanda

Kona lést og sex særðust þegar skotárás hófst á vinsælli verslunargötu í Toronto í Kanada í gær. Tveir menn, sem átt höfðu í rifrildi hófu skothríð á hvorn annan með fyrrgreindum afleiðingum. Þá sakaði þó ekki og hafa verið handteknir. Morðum hefur fjölgað um helming frá því í fyrra í landinu og sagði forsætisráðherra Kanada í gær að ef hann næði kjöri á ný, myndi hann banna skammbyssur.

Pinochet nógu frískur til að mæta fyrir rétt

Hæstiréttur Chile hefur kveðið upp þann úrskurð að Augusto Pinochet, sem var einræðisherra á Chile á árunum 1973-1990, sé nógu frískur til þess að mæta fyrir rétt vegna hvarfs á pólitískum andstæðingum hans árið 1975.

Fyrsti kynjaskipti leiksskólinn á Akureyri opnaður á næsta ári

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Hjallastefnunnar, hafa undirritað samning um rekstur leiksskólans Hólmasólar á Akureyri. Hólmasól verður fyrsti kynjaskipti leikskólinn á Akureyri.

Óskar Bergsson tilkynnir um framboð í efsta sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík

Óskar Bergsson hefur tilkynnt um framboð í efsta sæti lista Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Óskar kennir óvinsældum flokksforystunnar í ríkisstjórn um lítið fylgi flokksins í höfuðborginni. Þá segist hann hafa þess orðið var að flokksmönnum hafi líkað illa framboð Björns Inga Hrafnssonar í efsta sæti listans.

Ísraelar stækka landnemabyggðir

Ísraelsk stjórnvöld hafa ákveðið að láta byggja nær 230 íbúðir í Beitar Illit og Efrat landnemabyggðunum á Vesturbakka Jórdanár en það er í andstöðu við vegvísinn til friðar sem Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin, Evrópusambandið og Rússland stóðu að.

Ófært vegna snjókomu

Lögreglan á Blönduósi varar við því að ófært er um vegi í umdæmi lögreglunnar vegna mikillar snjókomu. Tvö umferðaróhöpp hafa orðið núna síðdegis en engin meiðsl á fólki.

Veiktust af að anda að sér gasi

Nær sjötíu manns voru lagðir inn á sjúkrahús í St. Pétursborg í Rússlandi eftir að þeir önduðu að sér gasi í verslanamiðstöð í borginni. Nokkrir til viðbótar leituðu sér læknishjálpar en fengu síðan að fara heim.

Rétta skal yfir Pinochet

Hæstiréttur Síle hafnaði í dag beiðni Augusto Pinochet fyrrum forseta Síle um að hann þyrfti ekki að svara til saka fyrir hvarf vinstrisinnaðra stjórnarandstæðinga í valdatíð hans frá 1973 til 1990. Pinochet verður því sóttur til saka vegna hvarfs 119 uppreisnarmanna á áttunda áratug síðustu aldar.

Um 80 uppreisnarmenn felldir

Stjórnarhermenn í Kongó og friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna hafa fellt áttatíu uppreisnarmenn síðustu vikuna að sögn talsmanns Sameinuðu þjóðanna í Kinshasa, höfuðborg Kongó.

Ófært á Hrafnseyrarheiði og Lágheiði

Hrafnseyrarheiði og Lágheiði eru ófærar vegna snjókomu samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Hins vegar er greiðfært um Hellisheiði og um Þrengsli.

Al-Kaída lýsa sig ábyrg

Al-Kaída hefur lýst ábyrgð á þaulskipulagðri árás á varðstöð lögreglu rétt fyrir utan Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Í það minnsta fimm íraskir lögreglumenn létu lífið í árásinni og fjórir særðust. Vopnaðir menn stukku út úr lítilli rútu þegar þeir nálguðust varðstöðina og skutu á lögreglumennina sem vöktuðu hana.

Sharon gengst undir aðgerð

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, gengst undir hjartaaðgerð einhvern tíma á næstu tveimur til þremur vikum. Þá verður reynt að loka litlu gati í veggjum hjartans sem talið er að hafi verið ástæðan fyrir áfallinu sem hann varð fyrir átjánda desember síðastliðinn.

Fimm létust í sprengjuárásum

Að minnsta kosti fimm manns létust í fimm bílsprengjum í Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Hryðjuverkum hefur fjölgað í landinu og segja Al Qaida-liðar að þannig verði það þar til samtökin hafi náð fullum völdum í landinu.

Óvenjumargar konur eiga von á sér

Óvenjumargar konur eiga von á barni í Ache-héraði í Indónesíu þar sem tugþúsundir barna fórust í flóðbylgjunni sem reið þar yfir á annan í jólum fyrir ári síðan.

Fá ekki mjólkurpeninga í nautgriparækt

Það kemur ekki til greina að nautgriparæktendur fái hluta þeirra styrkja sem voru eyrnamerktir mjólkurframleiðendum í síðasta búvörusamningi, segir formaður Landssambands kúabænda. Að öðru leyti er hann reiðubúinn að ræða styrki þeim til handa.

Seldu fleiri íbúðir en í meðalviku

Fleiri fasteignir seldust á höfuðborgarsvæðinu í síðustu söluviku fyrir jól en nemur meðalsölu síðustu tólf vikurnar sem á undan komu. 185 fasteignir seldust í síðustu viku og var meðalverð þeirra 23 milljónir króna, tæpum fjórum milljónum lægra en í meðalviku.

Enn brýn þörf á hjálpargögnum

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segja brýna þörf á teppum í milljónavís, plastábreiðum og fleiru til að aðstoða fórnarlömb jarðskjálftanna í Pakistan 8. október.

Hamfaranna við Indlandshaf minnst

Þjóðir heimsins minnast þess í dag að eitt ár er liðið frá því jarðskjálfti upp á 9,1 á Richter skók Indlandshaf með þeim afleiðingum að um 280 þúsund manns fórust.

Opið í Hlíðarfjalli í dag

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opnar í hádeginu og verður opið til klukkan fimm. Klukkan tíu var hitastigið rétt undir frostmarki og starfsfólk Hlíðarfjalls segir að þrátt fyrir hlýindi undanfarinna daga sé mjög góður snór í skíðabrekkunum.

Fáir bátar á sjó

Einn togari og ellefu bátar voru á sjó núna á tíunda tímanum að morgni annars í jólum. Mjög dregur úr sjósókn yfir jólin eins og annarri atvinnustarfsemi en til samanburðar má geta að venjulega eru um 200 skip og bátar á sjó undir hádegi í desember.

Friðsamlegt síðustu nótt

Skemmtanahald næturinnar gekk friðsamlega fyrir sig samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættum hringinn í kringum landið. Nokkur erill var hjá lögreglunni í Reykjavík en þar kom ekkert alvarlegt upp á og fangageymslur voru tómar í morgun.

Krapasnjór á Hellisheiði og í Þrengslum

Nokkur krapasnjór er á Hellisheiði og í Þrengslum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Verið er að hreinsa snjó af vegum í Borgarfirði, Dölum og Norðurlandi vestra til Sauðárkróks og Siglufjarðar einnig um Öxnadalsheiði til Akureyrar.

Innbrot í Apple-verslunina við Brautarholt

Innbrot var framið í Apple-versluninni við Brautarholt í dag. Lögreglu barst tilkynning um innbrotið klukkan tvö og þegar hún kom á vettvang kom í ljós að rúða var skrúfuð úr glugga búðarinnar í heilu lagi.

Biskup trúir ekki á jólasveininn

Biskup Íslands, séra Karl Sigurbjörnsson, segist ekki trúa á jólasveininn. Hann lýsti þessu yfir í miðnæturmessu í Dómkirkjunni í gær en töluverð umræða skapaðist í þjóðfélaginu á dögunum þegar greint var frá því að Flóki Kristinsson, sókn­ar­prest­ur á Hvann­eyri, hafi sagt hópi sex ára barna að jólasveinninn væri ekki til.

Rafmagn fór af í Kjós

Rafmagn fór af hluta húsa í Kjós um hálf sjö leytið í morgun. Talið var að það hafi farið af vegna þess að línur hafi slegist saman vegna veðurs. Viðgerðarflokkur frá Borgarnesi sá um viðgerðir sem lauk á tíunda tímanum. Aftaka veður var á staðnum og allar aðstæður mjög erfiðar.

Fullt út úr dyrum í kirkjum landsins

Fullt var út úr dyrum við guðsþjónustur í flestum kirkjum landsins í gær. Í Grafarvogskirkju var gripið til þess ráðs að láta kórinn standa alla guðsþjónustuna til að sem flestir fengju sæti.

Nokkur erill hjá lögreglunni í Reykjavík

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Reykjavík í nótt. Ekki voru alls staðar haldin gleðileg jól og þurfti lögreglan að hafa afskipti vegna ófriðar í nokkrum heimahúsum sökum ölvunar.

Páfi bað fyrir fæddum og ófæddum börnum

Sinn er siður í hverju landi og jólunum er fagnað með mismunandi hætti víðsvegar á hnettinum. Á Péturstorginu í Róm flutti Benedikt páfi sextándi sína fyrstu jólamessu á miðnætti. Hann bað fyrir friði í Ísrael og minntist sérstaklega á börn, fædd og ófædd, en hann er mikill og einlægur andstæðingur fóstureyðinga.

Ógnaði leigubílstjóra með loftbyssu

Maður um tvítugt var handtekinn eftir að hafa miðað gasbyssu á leigubílstjóra við Stórhöfða rétt eftir klukkan hálf þrjú í nótt. Þegar leigubílstjórinn tilkynnti lögreglu um atvikið hafði maðurinn haupið á brott. Þegar laganna verður mættu á staðinn til að ræða við leigubílstjórann birtist byssumaðurinn á nýjan leik.

Nokkur erill í verslunum í morgun

Nú fer hver að verða síðastur að gera síðustu jólainnkaupin enda verður flestum verslunum lokað innan klukkustundar, en nokkur erill var í Kringlunni og miðbænum í morgun. En jólin reynast sumum erfið og þeim sem ekki hafa í nein hús að venda verður boðið upp á mat á fimm stöðum í bænum.

Handteknir aftur vegna vopnastuldar

Tveir menn, sem lögreglan í Keflavík handtók á miðvikudag í tengslum við vopnastuldinn á Húsavík, voru handteknir aftur í gær eftir að lögreglumenn fundu þýfi og fíkniefni í fórum þeirra.

Býst við að endurskoðun verði rædd á fundi

Forseti ASÍ segist fastlega gera ráð fyrir því að forsætisráðherra verði beðinn um að endurskoða úrskurð Kjaradóms á fundi sínum með fulltrúum vinnumarkaðarins á þriðjudag. Formaður Kjaradóms segir að dómnum sé falið vanþakklátt og vandasamt hlutverk. Nauðsynlegt sé að finna leið til að ákvarða laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna sem sæmileg sátt geti verið um.

Enn hægt að kaupa jólatré

Þeir borgarbúar sem eiga eftir að kaupa jólatré og óttast að allt sé uppselt geta tekið jólagleði sína á ný því enn er hægt að fá jólatré á nokkrum stöðum. Þær fregnir bárust í gær að öll tré væru að verða uppseld og brugðust því margir skjótt við og urðu sér úti um tré. Óformleg athugun fréttastofunnar í morgun leiðir hins vegar í ljós að enn er hægt að verða sér úti um tré.

Sjá næstu 50 fréttir