Erlent

Minni umferð um Betlehem en áður vegna spennu á svæðinu

Frá Betlehem á Vestubakkanum.
Frá Betlehem á Vestubakkanum. MYND/AP

Fæðingarborg frelsarans, Betlehem, var vinsæll viðkomustaður kristinna pílagríma um árabil, en undanfarið hefur mjög dregið úr því. Spennan á svæðinu hefur hrætt ferðamenn frá.

Kristnir ferðamenn flykktust forðum tugþúsundum saman til Betlehem um jólin og á torginu við fæðingarkirkjuna söfnuðust tugir þúsunda saman til að hlýða á miðnæturmessu. Uppreisn Palestínumanna, ofbeldi og spenna hafa hins vegar haft neikvæða áhrif á ferðamannastraumin, ekki síst eftir að palestínskir byssumenn hertóku fæðingarkirkjuna í þrjátíu og níu daga árið 2002. Og fyrir viku hertóku palestínskir byssumenn ráðhúsið í Betlehem, skammt frá kirkjunni, og kröfðust þess að fá vinnu hjá palestínsku lögreglunni.

Þrátt fyrir þetta virðist sem ferðamenn séu ekki jafn hræddir við Betlehem og fyrir nokkrum árum. Nokkur hundruð manns voru til að mynda við messu í fæðingarkirkjunni í morgun. Öryggisgæslan er líka mikil: átta hundruð palestínskir lögreglumenn eru á aukavakt. Búist er við þrjátíu þúsund ferðamönnum í Betlehem yfir hátíðirnar, töluvert minna en þegar mest var en merki um að ástandið hafi samt batnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×