Innlent

Nokkur erill í verslunum í morgun

Nú fer hver að verða síðastur að gera síðustu jólainnkaupin enda verður flestum verslunum lokað innan klukkustundar, en nokkur erill var í Kringlunni og miðbænum í morgun. En jólin reynast sumum erfið og þeim sem ekki hafa í nein hús að venda verður boðið upp á mat á fimm stöðum í bænum.

Eins og undanfarin ár var nokkur fjöldi fólks var í Kringlunni í morgun, væntanlega að gera síðustu kaupin fyrir jólin. Þar var nokkur asi á fólki enda verður verslunum þar lokað klukkan eitt. Í Smáralind er einnig opið til eitt en í miðbænum voru flestar verslanir opnar til hádegis. Þar var einnig nokkur traffík í morgun og fólk lét leiðinlegt veður ekki stoppa sig.

Fyrir þá sem einhverra hluta vegna geta ekki borðað heima hjá sér er hægt að fara út að borða í kvöld og annað kvöld á þremur stöðum í miðborginni, Hótel Borg, Hótel Sögu og Vox en panta verður borð fyrir fram. Þá bjóða Samhjálp, Vin, Geðhjálp, Konukot og Hjálpræðisherinn þeim sem ekki hafa í nein hús að venda upp á mat, en á síðastnefnda staðnum er búist við 160 manns og þar verður boðið upp á hangikjöt, hamborgarhrygg og lambalæri.

Þá er Læknavaktin opin á aðfangadag frá 9 til 18 og svo aftur frá hálf níu um kvöldið til ellefu. á jóladag er opið frá níu að morgni til hálf ellefu að kvöldi. Sundlaugum bæjarins er flestum lokað um hádegi í dag og þær lokaðar á morgun






Fleiri fréttir

Sjá meira


×