Innlent

Fullt út úr dyrum í kirkjum landsins

MYND/Valli

Fullt var út úr dyrum við guðsþjónustur í flestum kirkjum landsins í gær. Í Grafarvogskirkju var gripið til þess ráðs að láta kórinn standa alla guðsþjónustuna til að sem flestir fengju sæti.

Óhætt er að ætla að hin góða kirkjusókn landsmanna í gær sé að einhverju leyti að þakka hinu góða skapi sem veðurguðirnir voru í, en afar stillt veður var víðast hvar um landið. Á Akureyri var nánast full kirkja þegar jólahátíðin var hringd inn klukkan sex og einnig var mjög góð mæting í miðnæturmessuna. Sömu sögu er að segja frá Ísafirði, Húsavík og Selfossi, og í Egilsstaðakirkju var fullt út úr dyrum við messu klukkan sex, eða vel á þriðja hundrað manns, auk þess sem mjög fjölmennt var við miðnæturmessu.

Biskup Íslands, séra Karl Sigurbjörnsson, var með miðnæturmessu í Dómkirkjunni í gær að vanda. Fullt var út úr dyrum og um 50 manns stóðu, auk þess sem nokkrir þurftu frá að hverfa. Biskupinn verður viðstaddur guðsþjónustu í Hallgrímskirkju í dag en mun þó ekki messa, og mun reyndar ekki gera það fyrr en á nýársdag.

 

Ástandið var verst, eða best eftir því hvernig á það er litið, í Grafarvogskirkju í gær, en Grafarvogssókn er fjölmennsta sókn landsins. 900 manns hlustuðu þar á aftansöng í upphafi jólahátíðarinnar og var gripið til þess ráðs að láta kórinn standa alla guðsþjónustuna til að sem flestir fengju sæti. Þá létu nokkrir sér gluggakistur kirkjunnar nægja til að hvíla lúin bein eftir jólaösina, og vera um leið í samneyti við Drottin.

Guðsþjónustur verða víða um land klukkan tvö í dag, til að mynda í Dómkirkjunni í Reykjavík, á Ísafirði, Húsavík, í Kirkjubæjarkirkju, og Þingvallakirkju, en nánari upplýsingar um guðsþjónustur yfir hátíðarnar er að finna inn á www.kirkjan.is

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×