Innlent

Björgunarsveitir kallaðar út vegna veðurofsa Vestanlands

Úr myndasafni
Úr myndasafni MYND/Vísir

Aftaka veður er víða vestanlands og hafa björgunarsveitir verið kallaðar út til þess að huga að lauslegum munum sem fokið hafa til.

Á ellefta tímanum í morgun kallaði lögreglan á Ísafirði út björgunarsveitina á staðnum vegna hjólhýsis sem var við það að fara að fjúka. Klukkan þrjú í nótt voru þakplötur farnar að losna af skemmu á Hellissandi og ýmislegt lauslegt farið að fjúka og voru björgunarsveitir á Hellissandi og í Ólafsvík kallaður út. Mjög hvasst var á Snæfellsnesi og mældist vindhraði allt að 30 metrar á sekúndu í hviðum. Um fimmtán björgunarsveitarmenn stóðu að aðgerðum þar til klukkan sex í morgun.

Rafmagnslaust varð í Kjós um klukkan hálf sjö í morgun vegna veðurs en viðgerðarflokki úr Borgarnesi tókst að koma rafmagni aftur á rétt fyrir klukkan hálf tíu. Hvasst hefur verið á höfuðborgarsvæðinu og hefur vindhraði í Reykjavík farið nærri þrjátíu metrum á sekúndu. Í Kópvogi fauk niður jólatré á hringtorgi á gatnamótum Digranesvegar og Dalvegar í Kópavogi og kallaði lögregla á starfsmenn bæjarins til þess að huga að trénu.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands eru það skil sem eru nú að færast hægt og bítandi inn á landið sem hafa valdið hvassviðrinu. Von er á að vind færi að lægja upp úr hádegi og að hann verði dottinn niður að mestu seinni partinn í dag. Á Austurlandi, þar sem veðrið hefur verið mun betra, ætti að lægja í kvöld.

Hitastigið er óvenjulegt miðað við árstíma og er hitinn ellefu stig víða. Á hálendinu er hiti yfir frostmarki og er hann lægstur tvær gráður í 820 metra hæð beggja vegna Hofsjökuls.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×