Fótbolti

9 dagar í EM: Óvæntustu Evrópumeistarar sögunnar höfðu aldrei unnið leik á stórmóti áður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grikkir fagna hér hinum óvænta sigri sínum á EM í Portúgal sumarið 2004.
Grikkir fagna hér hinum óvænta sigri sínum á EM í Portúgal sumarið 2004. Getty/Henri Szwarc

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Grikkir urðu mjög óvænt Evrópumeistarar á EM í Portúgal sumarið 2004.

Gríska karlalandsliðið í knattspyrnu er ekki með á EM í sumar og var heldur ekki með í Frakklandi fyrir fimm árum síðan. Fyrir sautján árum komu Grikkir hins vegar öllum á óvörum með því að fara alla leið í keppninni. Það gerðu þeir þrátt fyrir að skora færri mörk en íslensku strákarnir á síðasta Evrópumóti.

Grikkir mættu á EM í Portúgal sumarið 2004 í 35. sæti styrkleikalista FIFA og það voru sautján Evrópuþjóðir á undan þeim á listanum. Grikkir voru þannig á eftir þjóðum sem komust ekki einu sinni inn á Evrópumótið þetta sumar enda bara sextán þjóða keppni í þá daga.

Það bjuggust því fæstir við því að Grikkir kæmust upp úr sínum riðli og hvað þá að þeir færu eitthvað lengra en það. Þetta var fyrsta Evrópumót þeirra í 24 ár og árangurinn á hinum tveimur var ekki til að hrópa húrra fyrir.

Þetta var aðeins þriðja stórmót gríska landsliðsins í sögunni og Grikkir höfðu aldrei unnið leik á EM eða HM. Þeir gerðu eitt jafntefli og töpuðu tveimur leikjum á EM 1980 og töpuðu síðan öllum þremur leikjum sínum á HM í Bandaríkjunum sumarið 1994 þar sem markatalan var 0-10.

Grikkir gerðu aftur á móti það ómögulega á Evrópumótinu fyrir sautján árum. Þeir byrjuðu á því að vinna 2-1 sigur á gestgjöfum Portúgal í opnunarleiknum og eitt stig úr leikjunum á móti Spáni (1-1) og Rússlandi (1-2 tap) dugði til að tryggja liðinu annað sætið í riðlinum og sæti í átta liða úrslitunum.

Þetta var reyndar stórfurðulegt mót því risarnir Þýskaland, Ítalía og Spánn sátu allir eftir í riðlakeppninni og ríkjandi meistarar Frakka duttu síðan út í átta liða úrslitunum fyrir Grikkjum.

Grikkir héldu hreinu alla útsláttarkeppnina og tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn í fyrsta og eina skiptið með þremur 1-0 sigrum í röð. Angelos Charisteas skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum með skalla á 57. mínútu þar sem Grikkir mættu gestgjöfum Portúgal í annað skiptið á mótinu og unnu aftur. Hann var markhæsti leikmaður Grikkja á mótinu skoraði þrjú af sjö mörkum liðsins.

Sjö mörk þýða að íslensku strákarnir náðu að skora fleiri mörk á EM í Frakklandi 2016 en dugði Grikkjum til að tryggja sér Evrópumeistaratitilinn 2004.

Charisteas var einnig með sigurmarkið í átta liða úrslitunum á móti Frökkum en sigurmarkið í undanúrslitaleiknum á móti Tékkum skoraði Traianos Dellas í framlengingu.

Theodoros Zagorakis, miðjumaður og fyrirliði gríska liðsins, var valinn besti leikmaður keppninnar af UEFA og í úrvalshópi mótsins voru einnig markvörðurinn Antonios Nikopolidis, varnarmennirnir Traianos Dellas og Giourkas Seitaridis og svo sóknarmaðurinn Angelos Charisteas.

Þjóðverjinn Otto Rehhagel þjálfaði gríska landsliðið og landaði þessum óvænta Evrópumeistaratitli á þéttum varnarleik og vel útfærðum skyndisóknum og föstum leikatriðum. Þetta var langt frá því að vera skemmtilegasta fótboltaliðið en það tókst bara engum að brjótast í gegnum grísku vörnina þær þrjú hundruð mínútur sem liðið spilaði í útsláttarkeppni EM 2004.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×