Innlent

Fannst vanta stemmningu í skólann og skipu­lögðu hand­bolta­mót

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þeir Björn Bent, Tristan, Steinar Örn og Hrólfur voru hressir þegar þeir ræddu við fréttamann í dag.
Þeir Björn Bent, Tristan, Steinar Örn og Hrólfur voru hressir þegar þeir ræddu við fréttamann í dag. Vísir

Nemendur í Réttarholtsskóla tóku sig saman og skipulögðu handboltamót í skólanum. Þeir fengu þaulreyndan handboltamann til að sjá um dómgæslu á mótinu og eru bjartsýnir fyrir hönd íslenska landsliðsins á Evrópumótinu

Handboltaæði hefur grípið þjóðina og það ekki í fyrsta skipti. Þegar fréttamaður Sýnar leit við í íþróttahúsi Réttarholtsskóla var að hefjast handboltamót og það voru nemendur sjálfir sem höfðu veg og vanda að skipulagningu.

Fyrstu leikir mótsins fóru fram í dag og var mikið fjölmenni í íþróttasalnum og stemmningin eftir því.

Það var hart barist í viðureign dagsins.Vísir/Anton Brink

„Okkur fannst bara vanta einhverja stemmningu í hádeginu í skólanum og vildum bara halda handboltamót. Fullur salur og algjör veisla,“ sagði Steinar Örn nemandi í Réttó.

Þið hljótið að vera ánægðir með hvað eru margir að fylgjast með og taka þátt? 

„Að sjálfsögðu, bara mjög góð mæting og þetta er geðveikt.“

Fjölmargir fylgdust með á hliðarlínunni.Vísir/Anton Brink

Ýmislegt þarf að hafa í huga þegar skipuleggja á handboltamót.

„Við þurftum að redda íþróttasalnum, dómurum, styrktaraðilum og alls konar. Þetta er búið að vera mikil vinna en er allt að koma núna,“ bætti Steinar við.

Í handbolta spilar dómari stórt hlutverk og í Réttó dugði ekkert minna til en að leita til fyrrum atvinnumanns og hetju úr efstu deild, manns sem er með fjölmarga titla í ferilskránni.

Hugmyndin að mótinu kom upp í kennslustund.

„Ég sagði já, þetta er góð hugmynd en þið þurfið að gera allt. Ég skal bara vera starfsmaður, ég mætti bara að dæma og þau eru búin að sjá um umgjörðina. Þetta er bara geggjað hjá þeim,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson verkefnastjóri í Réttarholtsskóla og fyrrum handboltamaður en hugmyndin kom upp í umræðum um hvað væri hægt að gera til að bæta skólastarfið.

Jóhann Gunnar tók að sér dómgæslu en hann á að baki glæstan feril í efstu deild hér á landi.Vísir/Anton Brink

Leikirnir mega ekki skarast við kennslustundir og nemendur þurfa því að fórna frímínútum og matartímum. Jóhann sagði erfitt að dæma leikina og hann fékk að heyra það úr stúkunni.

„Dómarinn á Ölver og eitthvað, þetta kemur beint úr stúkunni í Víkinni. Maður þekkir þetta. Ég var við öllu búinn og var búinn að undirbúa mig mjög vel andlega fyrir svona köll.“

Gegnumbrot sem vafalaust skilaði marki.Vísir/Anton Brink

Margir af krökkunum æfa handbolta með Víkingi og fylgjast vel með landsliðinu á EM.

„Okkur líst bara vel á þetta, flottur sigur í gær og það er bara úrslit,“ sagði Steinar Örn.

Hvernig heldur þú að leikurinn fari gegn Sviss? 

„Ég er að vonast eftir stórsigri hjá okkar mönnum en jafn leikur, býst við því,“ bætti Tristan félagi hans við áður en þeir voru þotnir í næsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×