Lífið

Allt að 450 þúsund bíó­gestir á einu ári

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Árni Samúelsson tekur á móti gestum á síðustu sýningu Bíóhallarinnar.
Árni Samúelsson tekur á móti gestum á síðustu sýningu Bíóhallarinnar. Vísir/Samsett

Bíóhöllin við Álfabakka snýr aftur til upprunans í sínum síðasta mánuði sýninga. Þar verða næstu vikurnar sýndar ýmsar kvikmyndir sem stóðu fyrstu gestum kvikmyndahússins til boða árið 1982. Fyrsta bíómyndin sem sýnd var í Bíóhöllinni verður svo sömuleiðis sú síðasta, Being There með Peter Sellers í aðalhlutverki.

Árni Samúelsson, bíókóngur og stofnandi Sambíóanna segir það hafa verið hægara sagt en gert að brjótast inn í bíóbransann í Reykjavík á sjöunda áratugnum þegar hann steig sín fyrstu skref. Árið 1968 tók hann yfir rekstri Nýja bíós í Keflavík sem varð þá fyrsta Sambíóið. Hann segir hann fljótlega hafa langað að fara í bæinn.

„En þá var ekkert auðvelt að fara í bæinn því þessir greifar sem voru að reka bíóin þá sem voru ansi mörg,“ segir Árni sem stiklaði á stóru um söguna í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Heimsfrumsýningar í Reykjavík

Annan mars 1982 opnar svo Bíóhöllin, sem síðar varð að Sambíóunum Álfabakka. Henni fylgdu ýmsar nýjungar í íslenskum kvikmyndahúsarekstri svo sem kók sem hægt var að kaupa flöskulaust, hágæðahljóðkerfi og margt fleira. Aðalatriðið sem laðaði kvikmyndaunnendur var þó úrval kvikmynda.

Árni fór til Hollywood á fund hinna og þessara framleiðslufyrirtækjanna stóru og fékk það í gegn að myndirnar bárust til Íslands og í Bíóhöllina á sama tíma og þær fóru í kvikmyndahús í Bandaríkjunum og Bretlandi. Í fyrsta sinn fóru fram heimsfrumsýningar á erlendum kvikmyndum á Íslandi.

„Þeir höfðu aldrei farið út hinir. Þeir höfðu aldrei komið til Hollywood,“ segir hann og á væntanlega við hina „greifana“ í kvikmyndahúsaiðnaði borgarinnar á þeim tíma.

Fyrsta bíómyndin sem sýnd var í Bíóhöllinni verður jafnframt sú síðasta sem sýnd verður í Sambíóunum Álfabakka: hin geysivinsæla Being There með Peter Sellers í aðalhlutverki. Árni segir það hafa verið erfitt að fá myndina til sýningar á sínum tíma. Rétthafarnir hafi viljað fá fimm hundruð Bandaríkjadölum meira en hann tímdi. Hann samþykkti að lokum samninginn og sá heldur betur ekki eftir því, enda var myndin í sýningu í eitt ár og þrjá mánuði eftir opnun.

Tæplega hálf milljón gesta á einu ári

Ýmislegt hefur breyst í kvikmyndaiðnaðinum frá 1982 en Árni tekur sérstaklega fram þau áhrif sem kórónuveirufaraldurinn hafði á rekstur bíóhúsa. Ísland hafi í raun komið feiknarvel út úr því enda stóðu Íslendingar ekki á sér við að snúa aftur í grátauklæddu sætin. Annars staðar hafi kvikmyndahúsum fækkað töluvert hraðar.

Yfir áratugina fjóra sem sýningar fóru fram á Álfabakka segir Árni gæði mynda og fjölbreytt úrval hafa skipt sköpum.

„Það var þvílík traffík hérna. Ég skal segja þér það að eitt árið fengum við 450 þúsund manns í Bíóhöllina. Það er það mesta sem ég veit að hefur komið hérna í eitt bíó á einu ári,“ segir hann.

„Það er allavega Íslandsmet.“

Árni tekur á móti þeim síðustu

Árni segist sjá eftir Álfabakkanum en að það hafi ekki verið annað í stöðunni en að hætta starfsemi. Sambíóin geti ekki rekið þrjú stór bíó á höfuðborgarsvæðinu.

„Við leggjum nú aðallega áherslu á Kringluna og Egilshöllina. Þetta eru flott bíó með allt það nýjasta og flottasta. Ef við hefðum viljað halda áfram með Álfabakkann hefðum við þurft að leggja ansi mikið fé í hann til að endurnýja það sem verður að gera í dag,“ segir hann.

Þann 31. janúar verður Being There sýnd í Sambíóunum Álfabakka í síðasta sinn áður en dregið verður endanlega fyrir hvíta tjaldið. Árni stefnir á það að taka þar sjálfur á móti síðustu bíógestunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.