Innlent

Leitar af­kom­enda Ungverjanna sem komu til Ís­lands fyrir sjö­tíu árum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Erla María Jónsdóttir Tölgyes og afi hennar Mikael Fransson. Hann kom hingað sem flóttamáður frá Ungverjalandi á Þorláksmessu árið 1956, en þá bar hann nafnið Miklós Tölgyes. 
Erla María Jónsdóttir Tölgyes og afi hennar Mikael Fransson. Hann kom hingað sem flóttamáður frá Ungverjalandi á Þorláksmessu árið 1956, en þá bar hann nafnið Miklós Tölgyes.  aðsend/Timarit.is

Í ár verða liðin sjötíu ár síðan hópur ríflega fimmtíu flóttamanna kom frá Ungverjalandi til Íslands í framhaldi af byltingunni sem hófst í Búdapest haustið 1956. Í tilefni af þessum tímamótum hefur barnabarn eins flóttamannanna í hópnum ráðist í það verkefni að hafa uppi á afkomendum fólksins á Íslandi, en stór hluti hópsins settist hér að þótt aðrir hafi leitað áfram og aðeins staldrað stutt við á Íslandi.

Það var 23. október 1856 sem andspyrnuhreyfing stúdenta, verkalýðs og manna úr röðum hersins hóf uppreisn gegn ofríki sovéskra stjórnvalda. Vendingarnar voru hraðar og tókst að hrekja sovéska herinn á brott frá Búdapest og boðaðar voru lýðræðisumbætur í landinu nokkrum dögum síðar. Ekki leið þó á löngu þar til uppreisnin var brotin á bak aftur og Sovétríkin hrifsuðu aftur til sín völdin, en áætlað er að nokkur þúsund Ungverjar hafi verið drepnir í átökum við sovéska herinn.

Sumir tekið aftur upp ungversku ættarnöfnin

Erla María með afa sínum og Natalíu Björk lítilu frænku og langafabarni Mikaels.aðsend

„Þetta var í lok október 1956 sem að þessi bylting brýst út sem að verður til þess að þessi hópur sem kemur hingað þetta ár, að þau leggja á flótta og enda hér á Íslandi. Þetta voru 52 í heildina, upprunalegi hópurinn, og þau komu hérna á köldum desembermorgni á Þorláksmessu held ég alveg örugglega að það hafi verið,“ segir Erla María Jónsdóttir Tölgyes. Ættarnafnið hefur hún frá afa sínum sem hét ungverska nafninu Miklós Tölgyes áður en hann tók íslenska nafnið Mikael Fransson þegar hann settist hér að fyrir bráðum sjötíu árum síðan.

„Hann fékk bara úthlutað nafni og hafði í raun og veru ekkert um það að segja. Þannig hann heitir Mikael Fransson í dag og hann hefur gert grín að því og hlegið að því sjálfur að hann þekki engan Frans og hann er svo sannarlega ekki Fransson,“ segir Erla María. Þetta hafi átt við um allan hópinn sem hingað kom á sínum tíma, en hún viti til þess að fleiri hafi í seinni tíð ákveðið að taka upp ungversku ættarnöfnin.

Félagarnir tóku að hverfa sporlaust og vildi ekki vera næstur í röðinni

Mikael var kvaddur í herþjónustu sem ungur maður áður en hann flúði til Íslands.aðsend

Í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins frá 1980 lýsir Mikael afi Erlu Maríu aðdragandanum að því að hann lagði á flótta frá Ungverjalandi á sínum tíma. „En ástandið var ótryggt; félagar mínir úr hinum ýmsu herdeildum, sem tekið höfðu þátt í uppreisninni, hurfu einn af öðrum og engin skýring fékkst um hvað af þeim hefði orðið. Mér fannst óráðlegt að bíða þess að röðin kæmi að mér, og í samráði við fjölskyldu mína ákvað ég að hverfa úr landi og fór yfir til Austurríkis. Og þaðan lá svo leiðin til Íslands,“ sagði Mikael meðal annars í viðtalinu.

Fólkið sem hingað kom fór hvert sína leið en líkt og Mikael lýsir í viðtalinu var hann fyrir rest farinn að tala á íslensku við aðra samlanda sína sem hann þó hélt sambandi við. „Ég gerði mér strax ljóst þegar ég kom, að til þess að festa hér rætur, yrði ég að líta á mig sem einn af þjóðinni, með sömu skyldur og réttindi og hver annar Íslendingur,“ sagði Mikael sem þá hafði verið í 23 ár á Íslandi. Í dag er hann kominn yfir nírætt.

Vilja ná saman hópnum sem aldrei hefur verið gert áður

Mikael er flinkur teiknari en hann starfaði lengi vel sem auglýsingateiknari.aðsend

Spurð hvers vegna hún ráðist í það verkefni nú að hafa uppi á öðrum afkomendum fólksins sem hingað kom segir Erla María það í raun vera í tilefni áðurnefndra tímamóta. Ungverska menningarfélagið á Íslandi ætli að skipuleggja viðburð í október í ár þar sem sjötíu ár verða liðin frá uppreisninni og vantaði aðstoð við að hafa uppi á íslenskum afkomendum þeirra Ungverja sem hingað komu. Hún hafi því ákveðið að hjálpa til.

„Við erum að reyna að ná saman þessum hóp af því þetta hefur aldrei verið gert. Þetta fólk kom bara hingað og svo fóru þau bara öll af stað út í samfélagið og fengu aðstoð við að finna sér vinnu og tvístruðust svolítið. En þau hafa aldrei haldið einhverjum tengslum, þannig að það er það sem við erum að reyna að gera og átta okkur á því hver þeirra eru hérna ennþá. Það eru einhverjir sem héldu áfram og fóru eitthvert annað, en það eru alveg margir sem settust að hér og eignuðust maka og eignuðust börn og hér erum við öll en þekkjumst ekkert og vitum ekkert af hvort öðru,“ segir Erla María.

Ljóst sé að þetta gæti í dag verið orðinn nokkuð stór hópur, en aðeins í fjölskyldu Erlu Maríu eru afkomendur afa hennar og ömmu orðnir fjölmargir.

Mikael Fransson og kona hans Kristjana Birgis, amma Erlu Maríu.aðsend

„Við vitum að það voru eiginlega strax einhverjir sem fóru síðan áfram, sem sagt héldu áfram vestur, en það eru 25 aðilar sem að við erum nöfnin á. Og bara fjölskyldan mín og afkomendur afa míns sem var í þessum hópi, við erum átján. Þannig að þetta gæti verið alveg stór hópur.“

Nokkur fjöldi þegar haft samband

Hún kveðst þegar hafa fengið þónokkur skilaboð síðan hún setti inn færslu á samfélagsmiðla um leitina fyrr í vikunni, bæði frá afkomendum en líka öðrum sem ekki tengjast hópnum en vilja leggja hönd á plóg.

„Fólk er greinilega mjög viljugt að aðstoða við þetta allt saman sem er ótrúlega fallegt,“ segir Erla María. „Ég er bæði búin að heyra frá fjölskyldum, einstaklingum sem segja afi minn var í þessum hópi eða amma mín var í þessum hópi. En svo er svo krúttlegt að það eru líka alveg nokkrir sem eru búnir að senda mér og tengjast hópnum ekki neitt sjálfir en vilja endilega hjálpa.“

Fjölskyldan saman. Alls telur stórfjölskyldan með afkomendum Mikaels og Kristjönu átján manns.aðsend

Íslensk stórfjölskylda með ungverska taug

Í tilfelli Mikaels afa Erlu Maríu, líkt og margra annarra úr hópnum, aðlagaðist hann íslensku samfélagi hratt, lærði íslensku, fór að vinna og á hann nú stóra fjölskyldu sem er íslensk í húð og hár. Fjölskyldan er þó vel meðvituð um ungverska skyldleikann að sögn Erlu Maríu.

„Þegar hann kemur hingað þá slitna svolítið tengslin. Hann til dæmis átti mömmu úti áfram og systur sem hann hélt alltaf sambandi við. En hann til dæmis talaði ekki ungversku á heimilinu sínu, kenndi ekki börnunum sínum málið svo ég held að hann og þeirra líf hafi kannski ekki sérstaklega borið þess merki að hann væri ungverskur,“ segir Erla María.

Systurnar Hulda og Erla María í ungverskum klæðum sem stelpur.aðsend

Áherslan hafi strax þegar hópurinn kom til landsins verið á að aðlagast samfélaginu á Íslandi. „Þau fengu aðstoð við að koma sér út í samfélagið og voru spurð að því við hvað þau vildu vinna og í hverju þau væru góð og svo bara lærðu þau íslensku,“ útskýrir Erla María. Hins vegar hafi þau alltaf verið meðvituð um þennan dag, 23. október, daginn sem byltingin hófst úti í Búdapest.

„En ég er rosalega mikið alin upp við það að það er alltaf þessi ungverska kjötsúpa og alls konar einhverjir þjóðarréttir sem að amma hélt alltaf svolítið upp á og var að græja fyrir okkur þegar við vorum litlar. En að öðru leyti kannski ekki mikið sem sést á okkur,“ segir Erla María. Hún hvetur aðra afkomendur ungversku flóttamannanna sem hingað komu á sínum tíma til að setja sig í samband, en þegar fer hópur þeirra sem vitað er um stækkandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×