Lífið

Kallar Sóla klónabarnið sitt

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Sóli Hólm fór á kostum í hlutverki Ingu Sæland áramótaskaupinu. Hún segist vilja fá hann í afleysingar fyrir sig annað slagið.
Sóli Hólm fór á kostum í hlutverki Ingu Sæland áramótaskaupinu. Hún segist vilja fá hann í afleysingar fyrir sig annað slagið. Vísir

Almennt virðist ríkja mikil ánægja með áramótaskaupið og eru ráðherrar engin undantekning á því. Inga Sæland formaður Flokks fólksins er hæstánægð með frammistöðu Sóla Hólm sem lék hana og veltir fyrir sér hvort hún geti fengið hann í afleysingarstörf fyrir sig.

Áramótaskaupið 2025 vakti víða mikla lukku en þar kenndi ýmissa grasa. Margir netverjar lýstu aðdáun sinni á Sóla Hólm, sem lék Ingu Sæland, ráðherra og formann Flokks fólksins. Inga sjálf er hæstánægð með túlkun hans á sér og segir hægt að kalla hann Sóla Sæland.

„Mér fannst áramótaskaupið bara frábært og Sóli er bara my clone baby eins og ég hef sagt. Nú er mikið talað um að ég sé með þessa þrjá ráðherrahatta. Ég get ekki betur séð en að nú hringi ég í hann Sóla vin minn og athugi hvort hann geti ekki bara leyst mig af svona af og til. Ég elska Sóla,“ segir Inga.

Þurfum að geta tekið gríni

Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikkona túlkaði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Hún er ánægð með skaupið í ár.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir stjórnmálamenn þurfa að geta tekið gríni. Hér er hún á góðri stundu í Kryddsíldinni með Ingu Sæland og Kristrúnu Frostadóttur. Vísir/Anton Brink

„Mér fannst það frábært. Mér finnst oft þegar verið er að leika mig í áramótaskaupinu að frummyndin mætti taka sér þessar konur sem eru að leika mig sér til fyrirmyndar. Mér finnst þetta bara skemmtilegt. Ef við getum ekki tekið einhverju gríni þá þurfum við að snúa okkur að einhverju öðru en pólitík,“ segir Þorgerður.

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra er feginn að hafa ekki komið fyrir í áramótaskaupinu í ár. Vísir

Daði Már Kristófersson kom ekki við sögu í skaupinu í ár og er feginn. 

„Mér fannst skaupið alveg bráðgott og var sérstaklega ánægður með að ég kom hvergi fyrir í því,“ segir hann og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.