Innlent

Slökkvi­lið og björgunar­sveit komu álft í klandri til bjargar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Álftinni stóð ekki á sama þegar slökkviliðsmenn réttu fram hjálparhönd. 
Álftinni stóð ekki á sama þegar slökkviliðsmenn réttu fram hjálparhönd.  Pétur Pétursson

Slökkviliðsmenn í Árnessýslu komu álft, sem sat frosin föst við klaka í Ölfusá, til bjargar í dag. Álftinni virðist ekki hafa orðið meint af eftir prísundina og synti ásamt maka sínum í sólarlagið að björgun lokinni.

Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu rekur atburðarásina í samtali við fréttastofu. Sunnlenska greindi fyrst frá. 

Losaði sig af sjálfsdáðum

Lögreglu barst í dag tilkynning um álft sem virtist hafa fest annan vænginn við ísilagða Ölfusána nærri Hellisskógi. Svo reyndist vera þegar viðbragðsaðila bar að garði en önnur álft, líklega maki, væflaðist í kringum álftina sem sat föst. 

„Ísinn er nægilega traustur til að hægt sé að setja langan stiga út og fara þannig að álftinni en við kölluðum engu að síður í björgunarfélag Árborgar því þeir eru með straumvatnsbjörgunarmenn.

Svo fara okkar menn út í með björgunarvesti og línu. Svo þegar þeir eru komnir út að fuglinum verður hann hræddur, greyið og hamaðist talsvert. Þannig að honum tókst að slíta sig lausan en hann þurfti þessa hvatningu,“ útskýrir Pétur. 

Hann segir engin ummerki um að álftinni hafi orðið meint af. 

„Þær semsagt syntu hamingjusamar og fallegar inn í sólarlagið. Þetta tókst mjög vel.“

Makinn beið spakur eftir að álftin losnaði.Pétur Pétursson
Straumvatnsbjörgunarmenn voru slökkviliðsmönnum innan handar.Pétur Pétursson
Parið synti að sögn Pétur hamingjusamt út í sólarlagið.Pétur Pétursson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×