Lífið

Ís­lenska stelpan sem gerðist mormóni

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Soffía hefur birt myndskeið á TikTok þar sem hún hefur meðal annars sagt frá því hvernig það var að alast upp innan kirkjunnar og hún hefur komið inn á hinar og þessar mýtur og ranghugmyndir sem margir virðast hafa um mormónatrúna.
Soffía hefur birt myndskeið á TikTok þar sem hún hefur meðal annars sagt frá því hvernig það var að alast upp innan kirkjunnar og hún hefur komið inn á hinar og þessar mýtur og ranghugmyndir sem margir virðast hafa um mormónatrúna. Samsett

Á meðan margir tengja mormónatrú helst við bandaríska raunveruleikaþætti eða Netflix-heimildarmyndir byggir Soffía Gústafsdóttir skilning sinn á eigin reynslu. Hún ólst upp innan Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, flutti síðan til Utah sem unglingur og bjó í samfélagi þar sem rúmlega 90 prósent voru mormónar.

Soffía segir marga hafa ákveðna staðalímynd af líferni, siðum og venjum mormóna og telur ýmislegt af því vera sprottið út frá raunveruleikaþáttunum The Secret Lives of Mormon Wives sem hafa notið mikilla vinsælda að undanförnu. Hún segir myndina sem þar er dregin upp af mormónatrúnni þó oft á tíðum vera mjög ýkta og ekki í samræmi við raunveruleikann.

Upplifði sig ekki utangarðs

Soffía ólst upp hjá mömmu sinni í Vesturbænum í Reykjavík ásamt eldri bróður sínum en foreldrar hennar skildu þegar hún var tveggja ára.

Hún hefur ekki verið mormóni alla sína ævi.

„Mamma hefur alltaf verið trúuð og ég var skírð í lúthersku kirkjuna þegar ég var fæddist. En það breyttist þegar ég var sex ára. Mamma var á þeim tíma í sálfræðinámi í háskólanum og ein vinkona hennar úr náminu var mormóni. Hún var með Mormónsbók heima hjá sér og kynnti mömmu fyrir trúnni. Ég veit samt að mamma var ekki að stökkva á þetta alveg bara strax þarna í fyrstu, það tók hana smá tíma. Vinkona hennar kynnti hana fyrir trúboðunum og hún sendi þá heim til okkar rétt fyrir jól til að syngja jólalög fyrir okkur. Þá byrjaði mamma að tala við þá og svo byrjuðum við að mæta á sakramentissamkomur og mamma skírðist inn í kirkjuna. Svo skírðist ég inn í kirkjuna þegar ég var átta ára.“

@soffia.gustafsdottir Replying to @dollan.16 #icelandic #mormon #íslenskt #utah #slomw ♬ original sound - Soffía Gústafsdóttir

Hún segir að þó svo að hún hafi verið mormóni þá hafi hún ekki upplifað sig utangarðs eða fundist hún skera sig út úr hópnum í Melaskóla og Hagaskóla. Hún hafi átt vinkonur bæði innan kirkjunnar og skólans og auk þess æft ballet af fullum krafti.

Þessi mynd var rétt tekin rétt áður en Soffía var skírð inn í kirkjuna.Aðsend

„Það kom einstaka sinnum fyrir að ég fékk einhverjar svona athugasemdir, en ekkert svakalegt samt. Ég var heldur ekkert að tala um kirkjuna eða trúna við krakkana í skólanum. Það eina sem ég man eftir var þegar við vorum í 8. bekk og allir hinir krakkarnir voru að fermast. Ég var náttúrulega ekki partur af því.“

Soffía fór úr Hagaskóla á Íslandi yfir í menntaskóla í Utah.Aðsend

Engin kynfræðsla og stefnumót eru bönnuð

Eftir að Soffía lauk grunnskólanáminu við Hagaskóla fluttu þær mæðgur til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Utah, þar sem móðir Soffíu fór í meistaranám í lýðheilsufræði við Utah Valley University.

Þess ber að geta að umræddur háskóli komst í fréttirnar fyrr á þessu ári þegar hægri sinnaði áhrifavaldurinn Charlie Kirk var skotinn þar til bana þar sem hann var staddur við rökræður.

Mæðgurnar bjuggu fyrst í Mapleton, 12 þúsund manna smábæ þar sem rúmlega 90 prósent íbúa eru mormónatrúar, og seinna fluttust þær til Provo, sem er stutt frá.

Soffía fór í menntaskóla (e. high school) og þar sem skólinn er í Utah þá var meirihluti nemenda, 90 prósent, meðlimir í kirkjunni. Þar af leiðandi var hluti af náminu tengdur trúnni og fór fram í lítilli kirkjubyggingu á lóð skólans.

Landslagið er stórfenglegt í Utah.Aðsend

Utah er nánast andstæða Íslands þegar kemur að veðri og umhverfi: þar er þurrt meginlandsloftslag með miklum hitasveiflum, steikjandi heitum sumrum og köldum en björtum vetrum. Landslagið einkennist af sandsteinsklettum, eyðimörkum og djúpum gljúfrum. Á meðan Ísland er rakt, vindasamt og grátt og landslagið mótað af eldi og ís.

En það var ekki einungis veðurfarið sem gerði lífið í Utah ólíkt lífinu á Íslandi.

Á svæðinu þar sem Soffía bjó voru óteljandi kirkjur en hvergi var neina krossa að sjá, eins og á kirkjum á Íslandi.

„Allt voru bara kassalaga hús, og þetta átti líka við um skartgripi og hálsmen, það voru engir krossar neins staðar.“

Á meðan Soffía bjó í Utah fékk hún að eigin sögn ósjaldan að heyra: „Já, Ísland er grænt og Grænland er ís“ þegar hún tjáði fólki að hún væri frá Íslandi.

@soffia.gustafsdottir #íslenskt #utah #mormon #slomw #secretlives ♬ original sound - Soffía Gústafsdóttir

„Og það brást ekki, að í hvert skipti sem ég reyndi að útskýra fyrir fólki að þetta væri ekki svona einfalt, þá tók aldrei neinn mark á því sem ég var að segja. Það breytti engu að ég var Íslendingur og kom frá Íslandi, fólk taldi sig vita betur en ég hvernig Ísland liti út! Ég var líka mjög oft beðin um að segja eitthvað á íslensku og fékk þá að heyra: „Þetta hljómar alveg eins og álfamálið í Lord of The Rings!“

Annað sem gerði námið í Utah frábrugðið hefðbundnu námi á Íslandi var að nemendur fengu enga kynfræðslu í skólanum.

„Í líffræðitímum var skautað fram hjá kaflanum í bókinni sem snýr að kynfræðslu og við máttum ekki tala við kennarana um þennan part heldur. Einn kennarinn sem við vorum með var nú samt mjög pirruð á þessari reglu og hún var ekkert að leyna þeirri skoðun. Hún sagði okkur frá tilvikum sem hún hafði lent í þegar hún var hjúkka og ungt fólk var að koma til hennar sem hafði greinilega enga hugmynd um hvernig börn verða til. Einu sinni kom til hennar ungt, nýgift par sem sagðist hafa átt erfitt með að verða ólétt. Síðan kom í ljós að þau höfðu staðið í þeirri trú að samfarir færu fram í gegnum naflann,“ segir Soffía og bætir við að hún sé augljóslega ekki fylgjandi þeirri reglu að banna kynfræðslu fyrir ungt fólk.

„Jafnvel þó svo að kirkjan geri kröfur um skírlífi fram að giftingu þá breytir það því ekki að þú getur orðið fyrir kynferðisofbeldi, hvort sem þú ert í kirkjunni eða ekki. Þess vegna hef ég aldrei getað skilið þessa reglu.“

Samkvæmt reglum kirkjunnar mega unglingar ekki fara á stefnumót fyrr en þau eru orðin 16 ára.

Jafnvel þó að þú sért orðinn 16 ára þá máttu ekki vera einn eða ein með viðkomandi, þú mátt bara fara á svona hópdeit, stelpur í stelpuhóp og strákar í strákahóp.

Annað sem kom Soffíu spánskt fyrir sjónir á þeim tíma þegar hún bjó í Utah var að samnemendur hennar, og flestir aðrir, virtust ekki vita muninn á kommúnisma og sósíalisma.

„Það var eins og allir virtust halda að Bandaríkin væru eina frjálsa landið í heiminum og allir aðrir væru kommúnistar. Ég man eftir að hafa verið í sögutíma í skólanum og kennarinn spurði bekkinn: „Hvað haldið þið að Bandaríkin séu stór hluti af heiminum?“ Flestir svöruðu annaðhvort helmingur eða þá einn einn þriðji. Myndin sem þau hafa af heiminum er mjög þröng. Þau töluðu meira að segja sjálf um að vera í „Utah bubble“. Flest af þeim höfðu aldrei farið út fyrir Bandaríkin, höfðu jafnvel aldrei farið út fyrir Utah-ríki.“

Soffía útskrifaðist með „high school diploma“ í Utah en eins og sjá má var sláin og hatturinn hvít á lit, í samræmi við reglur kirkjunnar.Aðsend

Soffía segist einnig hafa orðið vör við gífurlega mikla útlitsdýrkun.

„Þegar maður keyrði um sá maður risaskilti (e. billboards) úti um allt með auglýsingum fyrir tannréttingar og alls konar fegrunaraðgerðir. Eitt af því sem ég tók eftir, og var mjög sjokkerandi, var hvað allir voru með skjannahvítar og þráðbeinar tennur. Útlitsdýrkunin var mjög áberandi hjá konunum. Meira og minna allar stelpurnar lituðu hárið á sér ljóst og voru með hárlengingar og voru alltaf stífmálaðar. Mamma tók eftir því að konurnar litu oft út fyrir að vera einhverjum tuttugu árum yngri en mennirnir sem þær voru giftar, allar búnar að fara í bótox og alls kyns aðgerðir.“

Algengur misskilningur að fjölkvæni sé leyft

Soffía flutti aftur heim til Íslands eftir tvö ár í Utah og lauk stúdentsprófi frá MH árið 2017. Síðan hélt hún út til Danmerkur og fór í háskólanám í lífvísindum. Þar kynntist hún ungum dönskum manni, Daniel Molbek, sem er líka meðlimur í kirkjunni. Í dag eru þau gift og eiga saman eins og hálfs árs dóttur, Sylviu Siv. Lífið er gott í Danaveldi.

Soffía og Daníel kynntust í gegnum félagsstarf í kirkjunni á sínum tíma og eru í dag hamingjusamlega gift, og orðin foreldrar.Aðsend

Soffía hefur birt myndskeið á TikTok þar sem hún hefur meðal annars sagt frá því hvernig það var að alast upp innan kirkjunnar og hún hefur komið inn á hinar og þessar mýtur og ranghugmyndir sem margir virðast hafa um mormónatrúna.

Viðbrögðin hafa verið talsverð, bæði jákvæð og neikvæð.

„Ég lendi oft í því að fólk segi mér hvað ég trúi, er semsagt búið að gefa sér það fyrir fram. Það var til dæmis einhver sem kommentaði á video hjá mér á TikTok um daginn og sagði: „Þú trúir því að allir sem trúa ekki á Guð fari til helvítis.“ Mormónar trúa ekki á helvíti.“

Hún nefnir sem dæmi að margir haldi að fjölkvæni sé leyfilegt á meðal mormóna. Staðreyndin sé hins vegar sú að í dag banni Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu iðkun fjölkvænis.

„Í fyrsta lagi stundum við ekki fjölkvæni. Það er bara ein kona fyrir hvern mann og það eru meira en hundrað ár síðan það var bannað. Og í ritningunum okkar þá er alveg skýrt að þetta sé lögmál sem er bara notað í ákveðnum tilfellum. En það eru minni jaðarhópar, sem eru ekki lengur hluti af okkar kirkju, sem stunda fjölkvæni. Þetta er svipað og sést í Netflix-þáttunum Keep Sweet, Pray and Obey. Margir halda líka að allir í Utah séu í kirkjunni eða allir meðlimir kirkjunnar séu í Utah en hvorugt er satt. Minna en helmingur meðlima kirkjunnar er í Utah en í Utah eru höfuðstöðvar kirkjunnar, svona eins og kannski Vatíkanið fyrir kaþólikka.“

Langt frá því að vera sammála öllu

„Þegar ég var unglingur voru tvær spurningar sem ég var mjög oft að fá frá fólki: Annars vegar hvort ég væri hrein mey og ætlaði að spara mig fram að giftingu. Hins vegar hvernig nærfötum ég gengi í, af því að meðlimir í kirkjunni sem hafa farið í svokallaða endowment-athöfn í musterinu eiga að klæðast sérstökum undirfötum sem kallast temple garments. Það er eins með þetta og allt annað, það eru ekki allir innan kirkjunnar sem fylgja þessu. Mér fannst þetta alltaf jafn óþægilegt og vandræðalegt að fá þessar spurningar,“ segir Soffía jafnframt.

Soffía hefur einnig verið spurð um viðhorf kirkjunnar gagnvart samkynhneigð og hún viðurkennir að það sé eitt af því sem hún eigi hvað erfiðast með að tengja við þegar kemur að trúnni.

„Það er vissulega mikil pressa á að ganga í gagnkynhneigð hjónabönd og vera skírlíf þangað til. Ég held reyndar að þetta viðhorf sé að breytast með minni kynslóð. 

Mitt viðhorf er og hefur alltaf verið þannig að hverjum og einum á að vera frjálst að giftast þeim sem hann elskar.

Hún nefnir einnig misskilning varðandi getnaðarvarnir og segir marga halda að það sé lagt blátt bann við þeim innan kirkjunnar. Það sé ekki rétt.

„Það eru líka margir sem halda að þungunarrof sé bannað og að mormónar megi ekki gefa eða þiggja blóð, megi ekki skilja eða halda upp á afmæli. Ég held að mikið af þessu sé tengt því að fólk ruglar saman mormónatrúnni og öðrum trúarbrögðum, eins og kaþólsku kirkjunni og Vottum Jehóva,“ segir hún.

@soffia.gustafsdottir Replying to @kolbrunfrida #icelandic #íslenskt #mormon #slomw #utah ♬ original sound - Soffía Gústafsdóttir

„Ég hef líka oft verið spurð hvort ég trúi á vísindi og svarið mitt er eiginlega nei; ég trúi ekki á vísindi. Og satt að segja finnst mér að það eigi ekki að blanda þessu tvennu saman, trú og vísindum. En ég stóla á vísindi, af því að vísindi hafa eiginlega bara ekkert með trúna að gera. Þau eru bara. Þau spyrja mig ekki hvað mér finnst. 

En í Bandaríkjunum er auðvitað fullt af kristnum einstaklingum sem treysta ekki á vísindamenn. Og það voru líka margir sem hættu í kirkjunni þegar spámaðurinn okkar sá okkur taka bóluefni við Covid.“

Ekki markmiðið að vera með áróður

Soffía hefur aldrei á ævinni drukkið áfengi ef frá er talið einn stakur sopi. Hún hefur heldur aldrei reykt, fengið sér húðflúr, litað á sér hárið eða drukkið gos eða kaffi – og sem barn mátti hún ekki klæðast hlýrabolum, stuttbuxum eða bikiní. Á sunnudögum hefur hún það fyrir venju að eyða engum peningum.

„Sumt af þessu er bandarískur kristinn kúltúr, annað er vísdómsorðið. Annað hefur ekkert með trú að gera. En ég er vön að þurfa að segja nei við alls konar.“

Hún segir marga standa í þeirri trú að mormónatrúin sé einhvers konar költ.

„Mér finnst margir hafa voðalega miklar áhyggjur af því að ég sé föst inni í einhverju költi, sé kúguð og komist ekki út. Fólk heldur að ég sé neydd til að fara samkvæmt hinum og þessum reglum. En ég vel sjálf hvaða reglum ég fylgi, og það er enginn sem mun skamma mig ef ég hætti í kirkjunni eða fylgi ekki hverri einustu reglu,“ segir Soffía og tekur fram að með myndskeiðunum á TikTok sé markmið hennar síst af öllu að þröngva skoðunum sínum upp á aðra eða vera með einhverskonar áróður, heldur vilji hún fyrst og fremst gefa öðrum innsýn inn í heim sem er flestum framandi. Hún segir trúna ekki heftandi eða kúgandi á neinn hátt, það jákvæða sé að trúin veiti henni ákveðin gildi, viðmið og lífsreglur til að lifa eftir.

„Þegar ég var unglingur fannst mér til dæmis oft mjög erfitt að segja nei við áfengi þegar allir aðrir voru að drekka, en í dag er ég mjög glöð að hafa gert það. Það er margt fallegt og gott sem ég hef tekið úr trúnni sem hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og fyrir það er ég þakklát.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.