Enski boltinn

Salah ekki með Liverpool til Ítalíu

Aron Guðmundsson skrifar
Viðtal sem Salah veitti eftir leik gegn Leeds United um helgina hefur valdið fjaðrafoki.
Viðtal sem Salah veitti eftir leik gegn Leeds United um helgina hefur valdið fjaðrafoki.

Mohamed Salah ferðast ekki með Liverpool yfir til Ítalíu og verður ekki í leikmannahópi liðsins gegn Inter Milan í Meistaradeildinni Evrópu annað kvöld.

Þetta er orðið ljóst nú þegar Liverpool hefur opinberað þá nítján leikmenn sem ferðast yfir til Mílanó í dag og munu mæta Inter Milan á morgun. Þar er nafn Mohamed Salah ekki að finna. 

Salah, sem er einn af bestu leik­mönnum ensku úr­vals­deildarinnar lét gamminn geisa eftir að hafa verið ónotaður varamaður í leik gegn Leeds United um helgina sem lauk með 3-3 jafn­tefli. Salah, sem hefur verið prímu­smótor í liði Liver­pool undan­farin ár, hefur byrjað síðustu þrjá leiki Liver­pool á bekknum.

Á viðtals­svæði Elland Road, heima­vallar Leeds, eftir leikinn um helgina gaf Salah sér góðan tíma með blaðamönnum sem er nokkuð ólíkt honum. Fljótt kom í ljós að um ekkert eðli­legt við­tal var að ræða.

Salah sagði að verið væri að henda sér undir rútuna og að ein­hver hjá félaginu vildi ekki hafa hann þar. Þá lýsti hann því hvernig sam­band sitt og Arne Slot væri brostið.

Salah æfði í gær með þeim leikmönnum Liverpool sem tóku lítinn sem engan þátt í leiknum gegn Leeds United og þá mætti hann aftur á æfingu með aðalliðinu í hádeginu í dag. 

Fyrr í dag var sagt frá því að líklegt þætti að Salah myndi ekki vera í leikmannahópi Liverpool á morgun. Richard Hughes, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool, í samráði við þjálfarann Arne Slot sem og eigendur Liverpool ákvað að Salah yrði ekki með gegn Inter Milan í Meistaradeildinni. 

Er sú ákvörðun talin til marks um þann stuðning sem þjálfarinn Slot hefur hjá stjórnendum félagsins samkvæmt því sem kemur frá hjá The Athletic.

Framhaldið er óljóst. Liverpool á leik á heimavelli gegn Brighton um komandi helgi en eftir þann leik er Salah á leið á Afríkumótið með Egyptalandi. 

Vitað er af áhuga á hans kröftum hjá félögum frá Sádí-Arabíu og Bandaríkjunum. Nú þarf að koma í ljós hvort hann og Slot geti slíðrað sverðin eða hvort annar þeirra þurfi að fara frá Liverpool. 


Tengdar fréttir

Kom stjórn­endum Liver­pool á óvart hversu harðorður Salah var

Leik­menn Liver­pool bjuggust við því að Mohamed Salah myndi tjá sig um stöðu sína hjá félaginu eftir að hafa verið ónotaður varamaður gegn Leeds United um komandi helgi. Það kom stjórn­endum Liver­pool hins vegar  á óvart hversu harðorður Salah var um sam­band sitt við þjálfarann Arne Slot.

Íslenskir Púlarar í sárum: „Takk fyrir allt Mósi minn“

Íslenskir stuðningsmenn Liverpool eru í losti eftir að Egyptinn Mohamed Salah kastaði handsprengju eftir jafntefli liðsins við Leeds í gær. Allt logar hjá félaginu sem og stuðningsmönnum eftir að Egyptinn lét stjórnendur liðsins heyra það.

Owen um Salah: „Skil hvernig þér líður“

Michael Owen, fyrrum framherji Liverpool, sem varð síðar óvinsæll hjá félaginu þegar hann samdi við Manchester United, hefur lagt orð í belg varðandi framgang Mohamed Salah eftir leik Liverpool við Leeds í gær.

Skýtur á Salah: „Lætur þetta allt snúast um sig“

Danny Murphy, fyrrum leikmaður Liverpool og sérfræðingur í Match of the Day á breska ríkisútvarpinu, BBC, gagnrýndi framkomu Mohamed Salah eftir leik liðsins við Leeds í gær. Salah rauf þögnina við fjölmiðla eftir þriðja leik hans á varamannabekk liðsins í röð þar sem hann útilokaði ekki brottför frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×