Tryggði Totten­ham stigið með hjól­hesta­spyrnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristian Romero fagnar hér jöfnunarmarki sínu sem tryggði Tottenham dýrmætt stig.
Cristian Romero fagnar hér jöfnunarmarki sínu sem tryggði Tottenham dýrmætt stig. Getty/George Wood

Newcastle og Tottenham gerðu 2-2 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld í leik sem bauð upp á mikla markaveislu í blálokin.

Fyrirliðinn og miðvörðurinn Cristian Romero var hetja Tottenham því hann skoraði bæði mörkin, þar af jöfnunarmarkið með hjólhestaspyrnu í uppbótartíma.

Í raun jafnaði hann leikinn tvisvar eftir að heimamenn komust yfir.

Tottenham fór því heim með eitt stig og endaði sex leikja sigurgöngu Newcastle á St. James´s Park. Öll fjögur mörk leiksins komu á síðustu tuttugu mínútunum.

Anthony Gordon kom Newcastle yfir í 2-1 með marki úr vítaspyrnu á 86. mínútu sem var dæmd eftir að dómari leiksins fór í skjáinn.

Rodrigo Bentancur og Daniel Burn voru að berjast um stöðu í hornspyrnu og eftir hana kölluðu myndbandsdómararnir á dómara leiksins.

Hann mat það svo að Bentancur hefði togað niður Burn og dæmdi víti.

Það héldu margir að þetta yrði sigurmarkið en Tottenham átti lokaorðið.

Bruno Guimaraes hafði komið Newcastle í 1-0 á 71. mínútu með laglegu skoti utarlega úr teignum en Romero jafnaði með skutluskalla á 78. mínútu eftir sendingu frá Mohammed Kudus.

Romero átti lokaorðið þegar hann skoraði með hjólhestaspyrnu. Hann hitti þó boltann með leggnum og hann skoppaði í netið á hálffurðulegan hátt.

Tottenham er í ellefta sæti og Newcastle í því þrettánda eftir úrslit kvöldsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira