Lífið

Töfra­maður fann Dimmu heila á húfi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það voru fagnaðarfundir þegar Jóhann fékk Dimmu aftur í hendurnar eftir að Einar Mikael hafði fundið hrafninn.
Það voru fagnaðarfundir þegar Jóhann fékk Dimmu aftur í hendurnar eftir að Einar Mikael hafði fundið hrafninn.

Töframaðurinn Einar Mikael fann hrafninn Dimmu eftir að hún hafði verið týnd í þrjá daga. Fóstri Dimmu óttaðist að hrafninn hefði endað í gini tófu sem hafði komið sér upp greni í nágrenninu.

Vísir fjallaði í gær um hrafninn Dimmu sem hafði ekki komið heim til sín í nokkra daga. Jóhann Helgi Hlöðversson, sem hefur fóstrað Dimmu frá því hún var eins árs, óttaðist að tófa við Helluvatn hefði drepið hrafninn. Nú hefur komið í ljós að Dimma slapp við tófuna.

„Gleðifréttir! Dimma er komin heim,“ skrifar Jóhann Helgi Hlöðversson í færslu sem hann birti upp úr þrjú í dag. Með færslunni fylgdi myndband af hressum hrafni og fegnum fóstra hans.

Einar Mikael kann að láta hluti hverfa og greinilega finna hrafna líka.

„Fékk símtal frá vini mínum, Einari Mikael töframanni, sem hringdi í mig rétt í þessu og spurði: „Ert þú að leita að hrafni?“ Ég svaraði því játandi og spurði: „Hvar ert þú?,“ skrifar Jóhann í færslunni. 

„Fyrir framan búrið hennar,“ hafi Einar Mikael svarað.

„Dimma var mjög glöð að hitta pabba sinn og þakkar kærlega öllum aðdáendum sínum sem hafa haft áhyggjur af velferð hennar. Dimma virðist í góðu standi en var ánægð með heilan pakka af SS pylsum,“ sagði Jóhann svo í færslunni.

Hér að neðan má sjá myndbandið þar sem Jóhann og Dimma leika sér, hrafninn kroppar í tennur fóstra síns og fær heilan pakka af SS-pylsum að éta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.