Innlent

Fram­hlaup hafið í Dyngjujökli

Árni Sæberg skrifar
Dyngjujökull er skriðjökull sem gengur út af Vatnajökli í norðurátt og er vestan við Kverkfjöll.
Dyngjujökull er skriðjökull sem gengur út af Vatnajökli í norðurátt og er vestan við Kverkfjöll. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt GPS-hraðamælingum Jarðvísindastofnunar Háskólans er framhlaup hafið í Dyngjujökli. Dyngjujökull er þekktur framhlaupsjökull og um 20 til 30 ár líða að jafnaði á milli framhlaupa. Hann hljóp síðast fram á árunum 1998 til 2000. Veðurstofan varar við ferðum á jöklinum.

Í tilkynningu þess efnis á vef Veðurstofu Íslands segir að fyrstu merki um framhlaup komi oft fram sem aukinn skriðhraði nærri jafnvægislínu nokkrum árum áður en verulega herðir á hraðanum. Framhlaup sé óregla í hreyfingu jökla sem felist í því að jökulskriðið herðir tímabundið á sér, oft tífalt, hundraðfalt eða jafnvel meira, og jökullinn springur allur upp.

Í framhlaupum flytjist ís af safnsvæðinu og jökulyfirborðið lækki en þykkni á leysingarsvæðinu og sporðurinn gangi fram um hundruð metra eða jafnvel marga kílómetra. Samfara þessu aukist afrennsli frá jöklinum og vatn spretti fram undan jökulsporði mun víðar en alla jafna. Aurburður í ám sem frá jöklinum falla vaxi margfalt.

Ekki sé alveg ljóst hversu stórt áhrifasvæði framhlaupsins verður en vert sé að vara við ferðum á Dyngjujökli. Líklega hafi nú þegar myndast sprungur á svæðum sem hafi verið greiðfær og ósprungin síðastliðin 20 ár.

Veðurstofa Íslands

Fylgst verði með framhlaupinu í samstarfi innlendra stofnana og erlendra samstarfsstofnana með margvíslegri gagnaöflun og greiningu. Hafinn sé undirbúningur að loftmyndatöku, greiningu á fjarkönnunargögnum, GPS-mælingum, rennslismælingum, greiningu vatns- og aurburðarsýna og uppsetningu hikmyndavéla til þess að skrásetja framhlaupið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×