Innlent

Beittur piparúða í fanga­klefa, hótað með rafbyssu og sveltur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hreiðar Eiríksson er lögmaður mannsins og segist líta málið alvarlegum augum.
Hreiðar Eiríksson er lögmaður mannsins og segist líta málið alvarlegum augum.

Lögmaður manns, sem beittur var piparúða í gegnum lúgu á fangaklefa á Akureyri, sveltur í haldi og hótað með rafbyssu á meðan hann var frelsissviptur, segist líta málið grafalvarlegum augum. Lögreglumönnunum sé þó ekki um að kenna.

Í bréfi lögmannsins til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu kemur fram að maðurinn telji sig hafa verið beittan ómannúðlegri meðferð í þrígang á meðan hann sat í fangageymslum á lögreglustöðinni á Akureyri. Fyrst í október 2024 þegar hann hafi sparkað í hurð fangaklefans, þá hafi lúgan á klefanum verið opnuð og rafbyssu miðað inn og honum hótað. 

Í mars hafi svo piparúða verið sprautað á hann inn um lúgu, hann hafi svo verið látinn dúsa í klefanum í klukkutíma með nærbuxur sínar einar fyrir vitum. Þriðja kvörtun mannsins snýr að því að hann hafi í júlí hvorki fengið vatn né mat í fjórtán klukkustundir í haldi lögreglu. Hreiðar Eiríksson lögmaður hans segir slíka meðferð ekki eiga að líðast.

Ekki við lögreglumennina að sakast

„Þessi vopn lögreglunnar eru hugsuð sem varnarvopn til þess að lögreglumenn verði síður fyrir meiðslum og draga úr þeirri hættu sem fylgir þeirra störfum. Hún er umtalsverð og ég held að við getum verið sammála um að lögregla á að hafa þessi vopn og þarf að hafa þau en það verður að vera hægt að treysta því að þeim sé ekki beitt nema í þeim tilgangi sem á að beita þeim.“

Óheimilt sé að beita vopnunum nema í vörn. Ekki stafi hætta af manni sem læstur sé inni í fangaklefa. Hreiðar segir ekki við lögreglumennina að sakast.

„Það eru stjórnendur lögreglunnar sem bera ábyrgð á þessu. Það væri óeðlilegt að það yrðu einhverjum lögreglumönnum hefnt fyrir þetta, þetta eru aðstæður sem þeir eru í, menning sem þeir vinna í, henni á að stýra og veita aðhald af hálfu stjórnenda lögreglunnar.“

Ræða þurfi breytingar á núverandi fyrirkomulagi vegna kvartana undan lögreglu. Það sé ekki til þess fallið að viðhalda trausti og því hafi verið breytt í nágrannalöndum. 

„Nefndin getur vísað svona málum til sakamálarannsóknar og þá er það eitt af lögregluembættum landsins em rannskar, það er að segja Héraðssaksóknari. Þetta fyrirkomulag er ekki trúverðugt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×