Innlent

Um­ferðar­slys á Fagra­dal og veginum lokað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lögreglan á Austurlandi varar við slæmri færð víða á vegum í umdæminu.
Lögreglan á Austurlandi varar við slæmri færð víða á vegum í umdæminu. Vísir/Vilhelm

Veginum um Fagradal hefur verið lokað vegna umferðarslyss sem þar varð síðdegis í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi standa enn yfir aðgerðir á vettvangi og hafa sjúkrabílar sótt slasað fólk á vettvang en ekki er talið að um alvarleg meiðsl sé að ræða, þó einhver. Nokkur vetrarfærð er á svæðinu og hefur fjallvegum í nágrenninu einnig verið lokað vegna ófærðar.

Þetta staðfetir Hjalti Bergmann Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi í samtali við Vísi. 

„Það varð þarna umferðarslys rétt fyrir tvö í dag. Það liggur ekki fyrir alvarleiki meiðsla, en það virðist vera ekki alvarleg meiðsli en þó einhver. Ég veit ekki hversu margir voru fluttir með sjúkrabílum til skoðunar hjá lækni, mitt fólk er ennþá uppi á Fagradalnum að vinna í þessu,“ segir Hjalti, en tilkynnt var um árekstur þegar útkallið barst.

Sjá einnig: Víða vetrarfærð, Fjarðar­heiði lokuð og björgunar­sveitir að­stoða fólk

Færðin sé ekki eins og best verður á kostið. „Það er skafrenningur og éljagangur uppi á fjallvegunum og skyggnið misgott á köflum. Fjarðaheiðin er lokuð og hefur gengið að mestu leyti ágætlega þar þrátt fyrir allt og allt. En við vonumst nú til þess að veðrið gangi niður þegar líður fram á kvöldið.“

Sjúkrabílar og aðrir viðbragðsaðilar komist þó til og frá vettvangi. Það sé ekki ófært um veginn en þó nokkuð blint og tilefni til að fara varlega yfir.

„Við hvetjum ökumenn til að fara varlega og eins að huga að skóbúnaðinum, huga að því að vera á réttum dekkjum til að fara á milli landshluta og byggðakjarna,“ segir Hjalti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×