Innlent

Hætt við sam­einingu HA og Há­skólans á Bif­röst

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri

Háskólaráð Háskólans á Akureyri hefur ákveðið að hætta frekari viðræðum um sameiningu við Háskólann á Bifröst og hefur tilkynnt stjórnendum skólans um ákvörðun sína ásamt menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu. Niðurstaðan var samþykkt einróma og gerð að vandlega athuguðu máli.

Þetta kemur fram í sitthvorri tilkynningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Í tilkynningu HA segir að viðræður, sem staðið hafa yfir síðan haustið 2023, hafi leitt í ljós að sumar af mikilvægustu forsendum sameiningar stóðust ekki nánari rýni. Skólarnir samþykktu að hefja viðræður um sameiningu í janúar í fyrra.

„Ein mikilvægasta forsendan við upphaf vinnunnar var að hægt yrði að sameina rekstrarform skólanna tveggja og að nýr skóli yrði áfram opinber háskóli. Í vinnunni hefur komið í ljós að afar erfitt mun reynast að fella starf Háskólans við Bifröst, sem er sjálfseignarstofnun, að rekstrarformi Háskólans á Akureyri og í raun eru engin fordæmi fyrir slíku,“ segir í tilkynningunni.

Segir að sá möguleiki að nýr sameinaður háskóli yrði alfarið opinber stofnun og að starfsfólk hans yrði allt opinber starfsfólk hafi ekki verið mögulegur. Því hafi verið ljóst að sameiningin yrði afar flókin og tímafrek og skapað óvissu um langa hríð.

„Önnur grundvallarforsenda sameiningar skólanna var að með sölu eigna Bifrastar og með framlagi frá stjórnvöldum væri hægt að setja á fót öflugan rannsóknarsjóð. Um það atriði ríkir hins vegar mikil óvissa vegna rekstrarformsins og er það niðurstaða Háskólaráðs að nýr háskóli gæti ekki haft stefnumótandi og stýrandi aðkomu að slíkum sjóði.“

Samtalið uppbyggilegt

Haft er eftir Áslaugu Ásgeirsdóttur rektori Háskólans á Akureyri að samtalið við Háskólann á Bifröst hafi verið ánægjulegt, uppbyggilegt og unnið af miklum heilindum.

Þótt kostir við sameiningu séu vissulega til staðar þá er mikilvægt að vera raunsæ, líta á heildarmyndina og það hlutverk sem okkur er ætlað. Ef við náum ekki að uppfylla það er betur heima setið og það teljum við heillavænlegast fyrir báða skóla á þessum tímapunkti,“ segir Áslaug.

„Háskólinn á Akureyri hefur stækkað og eflst verulega á undanförnum árum og stúdentum fjölgað. Það er metnaðarmál okkar allra sem að skólanum stöndum að byggja undir þá þróun. Um leið og skólinn er kjölfesta í samfélaginu okkar þarf hann að vera samanburðar- og samkeppnishæfur við aðra skóla og það er eitt af okkar aðalmarkmiðum.“

Haldi í markmið sín

Segir í tilkynningunni að Háskólaráð telji mikilvægt að Háskólinn á Akureyri haldi í forgangi markmið sínu um að efla enn frekar mikilvægi skólans fyrir Akureyri og nærliggjandi svæði. Enda skipti skólinn miklu máli fyrir samkeppnishæfi svæðisins, til að mynda hvað varði atvinnulíf, búsetugæði, menningu og fræðasamfélag.

„Þá hafa komið fram kröfur um að auka veg staðnáms við skólann og gera sýnilegra, meðal annars frá fræðasamfélaginu á Akureyri, stúdentum, bæjaryfirvöldum og fleiri mikilvægum hagaðilum í tengslum við umræður um sameiningu. Háskólaráð telur mikilvægt að hlusta á þessar kröfur og breytingar á starfsemi skólans taki mið af þeim.“

Segir að lokum í tilkynningunni að stjórnendur Háskólans á Akureyri og Háskólaráð þakki stjórnendum, starfsfólki og nemendum Háskólans við Bifröst fyrir uppbyggilega og góða vinnu síðustu misseri. Vinnan að sameiningunni hafi skapað tengsl milli skólanna sem von standi til um að geti orðið grunnur að nýju, öflugu samstarfi skólanna tveggja og vináttu til framtíðar.

Innri og ytri þrýstingur gert báðum skólum erfitt um vik

Í tilkynningu frá Háskólanum á Bifröst segir að stjórnendur skólans hafi kosið að líta á sameiningarviðræður sem tækifæri og mikilvæga viðleitni til að styrkja starfsumhverfi íslenskra háskóla enn frekar og auka samkeppnishæfni þeirra.

„Frá því fýsileikaskýrsla um mögulega sameiningu var birt í janúar 2024 hafa viðræðurnar verið undir innri og ytri þrýstingi sem gerði báðum háskólum erfitt um vik. Skilyrði til háskólasameiningar hafa af þeim sökum ekki verið sem ákjósanlegust. Nú er ljóst að háskólaráð HA hefur ákveðið að slíta sameiningarviðræðum.“

Segir að þó sameiningin hafi ekki gengið eftir muni Bifröst áfram leggja sitt af mörkum til einföldunar, eflingar og styrkingar á háskólaumhverfi á Íslandi. Háskólinn sé skilvirkur og lipur háskóli með mikla aðlögunarhæfni sem hafi lagað sig að íslenskum vinnumarkaði síðustu hundrað árin.

„Í okkar huga fólust spennandi tækifæri í því að leiða saman krafta þessara tveggja ólíku stofnana t.d. til að skapa nýjan öflugan háskóla, þann næst stærsta á Íslandi, sem væri að fullu samkeppnisfær við sambærilega háskóla í nágrannalöndum okkar. Einnig fólust í því tækifæri til að bæta enn frekar þjónustu og námsframboð fyrir fólk á landinu öllu“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst.

„Þau tækifæri eru þó enn fyrir hendi og Háskólinn á Bifröst er í lykilstöðu til þess að ná fram ofangreindum markmiðum. Skólinn hefur breyst mikið síðustu fimm ár. Fjármál eru til fyrirmyndar og gæðamál sömuleiðis. Undanfarin tvö ár hafa verið einhver þau bestu í rekstri Háskólans á Bifröst og hefur skólinn náð að laða til sín framúrskarandi fræðimenn og fagfólk. Þá sýnir mikill fjöldi nemenda í meistaranámi við skólann að íslenskir háskólanemar velja Bifröst fyrir sitt framhaldsnám því það hentar vel með starfi og fjölskyldu“, segir Margrét.

Þakka fyrir samvinnuna

Í tilkynningu Bifrastar segir að stjórnendur og kennarar muni halda ótrauð áfram að styrkja námsframboð og veita nemendum skólans hágæða menntun nú sem endranær. Skólinn haldi áfram að leggja áherslu á gróskumikið fræðastarf og öflugt og sveigjanlegt starfs- og námsumhverfi fyrir starfsólk.

„Háskólinn á Bifröst verður áfram leiðandi háskóli í uppbyggingu framúrskarandi fjarnáms á Íslandi og þjónar þannig nemendum um land allt og erlendis. Skólinn er hluti af virtu háskólaneti, OpenEU, sem tengir hann við sterkustu fjarnámsháskóla Evrópu. Háskólinn á Bifröst þakkar Háskólanum á Akureyri einlæglega fyrir samvinnuna og samstarfið undanfarin tvö ár og einnig ráðuneyti menningar-, nýsköpunar- og háskóla og hlakkar til áframhaldandi samstarfs og samtals um eflingu háskólanáms á Íslandi.“

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×