Innlent

Rann­saka líkams­á­rás og fjár­kúgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mál þar sem líkamsárás og fjárkúgun koma við sögu. Óskað var aðstoðar lögreglu vegna málsins í gærkvöldi eða nótt.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar en engar frekar upplýsingar veittar.

Lögregla rannsakar einnig nytjastuld á bifreið, auk þess sem rannsókn stendur yfir á innbroti í litla matvöruverslun. Einn hefur verið handtekinn í tengslum við það mál.

Tilkynnt var á vaktinni um einstakling sem var sagður vera að kasta drasli yfir á svalir nágranna síns. Þá var pari í annarlegu ástandi vísað út af hóteli, manni sem svaf í bílakjallara vísað á brott og sömuleiðis manni sem svaf á bensínstöð.

Tilkynningar bárust einnig um tvo einstaklinga sem voru sagðir freista þess að komast inn í heimahús en þeir voru farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Þá barst tilkynning um tvo einstaklinga sem voru komnir inn á stigagang en þeir höfðu sig sömuleiðis á brott áður en lögregla kom á vettvang.

Ekki virðist vitað hvort um sömu tvímenninga var að ræða í báðum tilvikum.

Eitt útkall barst vegna tónlistarhávaða í heimahúsi. Viðkomandi var beðinn um að lækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×