Innlent

Hundruð sprengjusérfræðinga koma saman á Ís­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Íslenskir sprengjusérfræðingar með bandarískum hermönnum við leit að sprengjum á gömlu æfingasvæði varnarliðsins við Fagradalsdjall á heræfingunni Norður-víkingur.
Íslenskir sprengjusérfræðingar með bandarískum hermönnum við leit að sprengjum á gömlu æfingasvæði varnarliðsins við Fagradalsdjall á heræfingunni Norður-víkingur. Landhelgisgæslan

Rúmlega fjögur hundruð sprengjusérfræðingar frá átján löndum hafa í vikunni streymt til landsins vegna árlegrar sprengjueyðingaræfingar. Íslendingar munu verða varir við ökutæki og búnað á vegum sprengjusérfræðinganna frá Þorlákshöfn að Reykjanesi og frá Reykjanesi að Hvalfirði.

Að mestu mun æfingin þó fara fram innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli, í Helguvík og í Hvalfirði.

Æfingin Northern Challenge hefst formlega, í tuttugasta sinn, þann 8. september en hana sækja sprengjusérfræðingar frá Íslandi, Belgíu, Kanada, Tékklandi, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi, Litáen, Nýja Sjálandi, Svíþjóð, Noregi, Austurríki, Póllandi, Hollandi og Bretlandi.

Bryndrekar sem notaðir verða við æfingarnar á öryggissvæðinu í Keflavík.Landhelgisgæslan

Fulltrúar frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) munu einnig taka þátt og deila reynslu þeirra af meðhöndlun sönnunargagna, samkvæmt tilklynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þar segir að á æfingunni muni þátttakendum gefast kostur á að samhæfa viðbrögð við atvikum eins og hryðjuverkum. Þá tekur æfingin í ár mið af þeim ógnum sem fyrir hendi eru í heiminum í dag og verður líkt eftir sprengjum sem fundist hafa víða um heim. Sérfræðingarnir munu þurfa að meðhöndla þær og aftengja.

Landhelgisgæslan segir að æfingin muni veita sprengjusérfræðingum einstakt tækifæri til smaráðs og til þess að miðla reynslu og þekkingu þeirra á milli.

„Northern Challenge hefur notið mikillar virðingar á meðal bandalagsþjóða Atlantshafsbandalagsins NATO og hefur skipað sér sess sem ein mikilvægasta æfing sprengjusérfræðinga innan Atlantshafsbandalagsins.“

Æfingin hefst þann 8. september og stendur til 18. september.

Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar með bandarískum hermönnum við æfingar. Landhelgisgæslan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×