Lífið

Cardi B sýknuð af kröfu um líkams­á­rás á öryggis­vörð

Lovísa Arnardóttir skrifar
Söngkonan við dómhúsið í dag.
Söngkonan við dómhúsið í dag. Vísir/Getty

Söngkonan Cardi B var sýknuð í dómstóli í Los Angeles í dag af kröfum öryggisvarðar sem kærði hana fyrir að hafa ráðist á sig með nöglum sínum. Emani Ellis, öryggisvörðurinn, krafðist þess að hún myndi greiða sér 24 milljónir Bandaríkjadala sem samsvarar tæpum þremur milljörðum íslenskra króna.

Í frétt BBC segir að Ellis hafi haldið því fram að Cardi B hafi bæði klórað sig með nöglunum og hrækt á sig fyrir utan skrifstofu fæðingarlæknis. Cardi B var þungið á þessum tíma en það var ekki almenn vitneskja. Skrifstofu læknisins hafði verið lokað til að verja friðhelgi einkalífs hennar.

Réttarhöldin hafa staðið yfir síðustu viku og hafa vakið mikla athygli. Sérstaklega þegar Cardi B bar vitni og lýsti bæði aðstæðum og fötunum sem hún klæddist þennan dag. Hún sagði Ellis hafa elt sig og tekið hana upp og ekki hafa viljað láta sig í friði. Ellis sagði atvikið hafa sært sig.

Cardi B viðurkenndi fyrir dómi að hún og Ellis hafi átt í æstum samræðum en viðurkenndi ekki að hafa klórað hana eða hrækt á hana. Lögmaður hennar sagði fyrir dómi að á þessum tíma hafi hún óttast um ófætt barn sitt og að það yrði almenn vitneskja í kjölfarið að hún væri ólétt.

Kviðdómur tók sér klukkutíma til að fara yfir málið og lýsti því svo yfir að þau teldu Cardi B saklausa af kröfum Ellis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.