Lífið

Kóngurinn með kveðju til Ís­lendinga

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Halla Benediktsdóttir fór á fund Friðriks X Danakonungs í morgun.
Halla Benediktsdóttir fór á fund Friðriks X Danakonungs í morgun. Samsett/Facebook/AP

Halla Benediktsdóttir, umsjónarmaður Jónshúss í Kaupmannahöfn, heimsótti Friðrik X Danakonung í dag og færði honum þakkir fyrir orðuna sem kóngur sæmdi hana í tilefni af heimsókn hans og íslensku forsetahjónanna í Jónshús fyrra. Í dag eru jafnframt tíu ár síðan Halla tók við starfinu í Jónshúsi en á fundi hennar með konungi í dag bað hann fyrir kveðju til Íslendinga.

Frá þessum tímamótum er greint á Facebook-síðu Jónshúss í dag.

Sjá einnig: Sögu­leg heim­sókn konungs­hjónanna í Jóns­hús

„Í dag eru 10 ár síðan ég, Halla Benediktsdóttir, tók við starfinu sem umsjónarmaður Jónshúss. Tíminn hefur verið viðburðarríkur og mjög margt áhugavert og skemmtilegt gerst,“ segir í færslunni.

„Dagurinn í dag var engin undantekning, en hann hófst með heimsókn minni til kóngsins, Friðriks tíunda, þar sem ég þakkaði honum fyrir að veita mér Dannebrogsorðuna síðastliðið haust, í tengslum við heimsókn íslensku forsetahjónanna og dönsku konungshjónanna í Jónshús,“ segir ennfremur í færslunni.

Fréttastofa fylgdist náið með heimsókninni á sínum tíma en Friðrik X heimsótti Jónshús ásamt Maríu drottningu eiginkonu sinni í október í fyrra, fyrstur danskra þjóðhöfðingja, til að heimsækja menningarmiðstöð Íslendinga í Kaupmannahöfn í Jónshúsi. Heimsókn forsetahjónanna Höllu Tómasdóttur og Björns Skúlasonar til Danmerkur var jafnframt fyrsta opinbera heimsóknin þar sem Friðrik X var í hlutverki gestgjafa eftir að hann tók við krúnunni af Margréti móður sinni Danadrottningu í janúar 2024.

„Við spjölluðum stuttlega saman um heimsóknina og sagði hann að hún hefði verið lærdómsrík. Hann bað síðan fyrir kærri kveðju til notenda Jónshúss og annarra Íslendinga og er henni hér með komið á framfæri,“ skrifar Halla í færslu Jónshúss sem birt er ásamt mynd frá Kristjánsborgarhöll í morgun.

Facebook





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.