Innlent

Ekki til­kynnt um stórt gat á sjókví í nokkurn tíma þrátt fyrir eftir­lit

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Eldiskvíar Arctic Fish undan Gemlufalli í Dýrafirði. Þingeyri og Sandafell í baksýn.
Eldiskvíar Arctic Fish undan Gemlufalli í Dýrafirði. Þingeyri og Sandafell í baksýn. Vísir/KMU

Gat fannst á sjókví númer eitt á eldissvæði Arctic Sea Farm við Eyrarhlíð í Dýrafirði. Gatið var um 20 sinnum 40 sentímetrar að stærð. Vísbendingar eru um að gatið hafi verið á kvínni í nokkurn tíma án þess að framleiðandi hafi tilkynnt um tilvist þess til Matvælastofnunar.

Matvælastofnun greinir frá þessu í tilkynningu. Samkvæmt gögnum var neðansjávareftirliti við Eyrarhlíð sinnt á þrjátíu daga fresti líkt og reglugerð kveður á um og tilkynnt til stofnunarinnar að ekkert athugavert hefði komið fram við neðansjávareftirlitið.

„Lokið var við að slátra öllum laxi úr eldiskvínni þann 6. júlí sl. Matvælastofnun lítur málið alvarlegum augum og hefur hafið rannsókn. Stofnunin hefur kallað eftir frekari gögnum frá Arctic Sea Farm sem gætu varpað skýrari ljósi á atvikið. Að rannsókn lokinni verður gefin út eftirlitsskýrsla um rannsóknina og birt á mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Tilkynningin kemur í kjölfar umfjöllunar Vísis um að hundrað eldislaxar hafi fundist í Haukadalsá í Dalabyggð í dag. Um er að ræða stærsta tilvik eldislaxa í á á Íslandi. Ekki er ljóst hvaðan laxarnir hafi sloppið en í tilkynningu MAST greinilega gefið í skyn að eftirliti hafi annað hvort ekki verið sinnt eða ekki sinnt nógu vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×