Lífið

Ó­missandi göngu­leiðir sem þú verður að prófa

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Framleiðandinn og danshöfundurinn Stella Rósenkranz er algjör fjallageit og deilir góðum ráðum.
Framleiðandinn og danshöfundurinn Stella Rósenkranz er algjör fjallageit og deilir góðum ráðum. Aðsend

„Ég nærist á orkunni í náttúrunni og er þessi týpa sem er með milljón landslagsmyndir í símanum mínum. Við erum svo nýbúnar að setja á laggirnar gönguhóp sem kallast Gelluvaktin,“ segir framleiðandinn og danshöfundurinn Stella Rósenkranz sem er einn mesti göngugarpur sumarsins.

Stella er stanslaust á fjöllum og deilir hér með okkur ótrúlega skemmtilegum gönguleiðum og skothelldum fjallgönguráðum.

Hvað finnst þér best við göngur?

Ég bara elska þetta. Það má segja að ég sé uppalin á fjöllum og í útivist. Foreldrar mínir fóru mikið með okkur systkinin um allt land að ganga, skíða og veiða þegar við vorum ung. Svo var afi minn duglegur að fara í göngur og við alltaf með í öllu. 

Þannig að ég er algjört náttúrubarn og hef oft grínast með það að ég sé best geymd í kofa uppi í fjöllum.

Ég nærist á orkunni í náttúrunni og er þessi týpa sem er með milljón landslagsmyndir í símanum mínum. Það er hörð samkeppni á milli landslagsmynda og myndum af hundinum mínum, Esju. 

Öflugt tvíeyki, Esja og Stella.Aðsend

Hún er Golden Retriever sem elskar að vera á fjöllum og besti göngufélaginn. Við eigum marga geggjaða æfingafélaga sem eru allir sammála um það að það er ekki jafn skemmtilegt ef það vantar Esju eða Búbbuna eins og hún er kölluð. Utanvegarhlaup og göngur eru mitt zen.

Hvaða fimm göngur nálægt höfuðborgarsvæðinu finnst þér skemmtilegastar og af hverju?

Mínar „go to“ gönguleiðir eru allar á höfuðborgarsvæðinu eða mjög nálægt. Þetta eru allt gönguleiðir sem ég dýrka að taka til skiptis reglulega. Ég tækla þetta alltaf eins, labba rösklega og hlaupa það sem er hægt að hlaupa á leiðinni upp.

Svo læt ég mig bomba niður í algjöra endorfínlosun. Þetta er kallað runners high af ástæðu. Best er að fara þetta með góðum vinkonum. Ég bý svo vel að vera með fullt af vel aktívum píum í kringum mig sem hika ekki í eina sekúndu þegar ég sting upp á göngu á góðum degi. Algjör snilld enda ekkert meira nærandi.

1. Móskarðshnúkar

Mín allra uppáhalds gönguleið á höfuðborgarsvæðinu er klárlega Móskarðshnúkar. Þetta eru tveir tindar austan megin á Esjunni. Það er ekkert sem skákar bestu hnúkunum á góðum degi. Útsýnið á toppnum er algjör draumur. 

360 gráðu útsýni yfir Reykjavík, Kjósina og Þingvelli. Þetta eru 7 km fram og til baka og um 800 km hækkun efst á toppnum. Það er best að fara á sólardegi finnst mér og fá náttúruna í allri sinni dýrð beint í æð.

Hnúkarnir eru úr ljósu líparíti og líta oftast út eins og sólin skíni á þá. Á sólardegi skína þeir extra skært og gera upplifunina svo tryllta. Algjört lykilatriði að gefa sér tíma á toppnum til þess að taka alla náttúruna inn og sitja í þögninni. 

Móskarðshnúkar eru í miklu uppáhaldi hjá Stellu.Aðsend

Oftar en ekki nær maður að vera alveg einn á toppnum. Algjört zen og sálar meðal. Þetta er skemmtilegasta gönguleiðin til þess að bomba niður. Þvílíkt frelsi að hlaupa niður í lausu grjótinu, sleppa höndunum út og bara láta sig vaða áfram. Mæli með!

2. Glymur

Glymur er gönguleið sem á sérstakan stað í hjartanu. Það er bara eitthvað svo töfrandi við þennan stað. Það er alveg ákvörðun að ætla að fara Glym því það þarf að fórna sér í klukkutíma akstur inn í Hvalfjörð. En alltaf þess virði. 

Þetta er sirka 7 km leið fram og til baka eins og Móskarðshnúkar en er hringleið. Maður byrjar gönguna á að fara yfir trédrumb neðst við Botnsá og svo þarf maður að vaða yfir ána aftur á efsta punkti.

Ég fer reyndar aldrei yfir drumbinn því ég þarf að vaða yfir ána með Esju sem þorir ekki yfir drumbinn. Þannig að þetta er alltaf smá ævintýri. Þetta er sirka 400 metra hækkun og leiðin er þægileg. Mikið af lausu grjóti og þröngir stígar þannig að þetta er smá príl inn á milli. Alveg slatta príl en hrikalega gaman. 

Stella og Esja glæsilegar við Glym! Aðsend

Glymur er hæsti foss landsins og algjör náttúruperla. Ég er einhvern veginn alltaf með símann á lofti allan tímann að mynda allt en það er bara ég. Mjög hrifnæm í þessu umhverfi. Mæli með að gefa sér góðan tíma á leiðinni upp og stoppa og hlusta á niðinn í fossinum og taka þetta allt inn. Mínar skemmtilegustu ferðir þarna upp hafa verið með foreldrum mínum. Algjör gæðastund!

3. Gunnlaugsskarðið á Esjunni

Ótrúlega skemmtileg og falleg leið sem er í krikanum á milli Kistufells og Esjunnar. Hún er minna farin en hin klassíska leið upp að steini. Leiðin er aðeins meira krefjandi út af lausum jarðvegi en alveg hrikalega falleg. Hún hefst hjá Esjustofu í gegnum skóginn, upp skarðið, yfir hábungu, um Þverfellshorn og að steini og niður. 

Það besta er að maður hittir nánast aldrei neinn á leiðinni nema kannski einn og einn á fjallahjóli eða hlaupara. Þetta er sirka 12-13 km hringur, það fer eftir því hvort maður tekur alla leiðina eða styttir sér leið yfir. Það er misjafnt hjá mér. 

Stella er mikil ævintýrakona og er stöðugt að leita að nýjum fjallgöngum.Aðsend

Hækkunin er á bilinu 650-800 metrar. Leiðin er alveg vel krefjandi og reynir á. En æðisleg leið til þess að upplifa annað útsýni en maður er vanur á Esjunni. Ég er bara þannig týpa að ég get ekki farið sömu leiðirnar endalaust. Ég verð að fá eitthvað nýtt inspó inn á milli til þess að fá „vá“ faktorinn sem gefur orkuskot í hjartað.

4. Úlfarsfell

Fell en ekki fjall en stendur undir sínu í hvert skipti. Mín go to leið er suðvesturhlíðin sem er stundum kölluð Mosfellshliðin. Þetta er sem sagt hlíðin sem snýr að Mosfellsbæ. Þar liggur stigi upp sem er brattur en mjög greiðfær. Þetta er stysta leiðin upp á Úlfarsfell, sirka 1.8 km upp. Ég elska að taka góðar hlaupaæfingar þarna, hlaupa upp og niður. Stundum eina ferð og stundum nokkrar í einu. 

Það er reyndar algjör pína að hlaupa alla leiðina þannig að oftar en ekki er maður að labba hluta af leiðinni rösklega. Ég er ekkert eðlilega ánægð með mig þegar dagsformið er þannig að ég get hlaupið alla leiðina upp. Hækkunin er ekki nema 260-280 metrar. Það er alltaf mikil göngu umferð þarna enda geggjuð leið. Allir á sínum hraða og allir að njóta. 

Stella er í skýjunum þegar hún nær að hlaupa upp Úlfarsfellið.Aðsend

Það sem er æðislegt við Úlfarsfellið er að það er stutt að fara þar sem þetta er alveg á höfuðborgarsvæðinu, frekar létt ganga og mega 360 gráður útsýni á toppnum, getur ekki klikkað.

5. Reykjadalur

Mér finnst alltaf gaman að fara Reykjadalinn. Skokka eða ganga hratt upp og bomba svo niður. Þetta er líka bara næs viðrun á góðum sumardegi. Þetta er líka í kringum 7 km fram og til baka - 3.5 km hvora leið. Þægilegt undirlag og mesti brattinn kannski fyrstu 15 mínúturnar. 

Svo er þetta bara notalegt alla leiðina inn að baðaðstöðunni. Algjör bónus að skella sér ofan í heita lækinn þegar maður er kominn upp. Aðstaðan þarna er orðin svo fín og alltaf hægt að finna sér pláss þó það sé fullt af fólki í læknum. Mæli með að ganga aðeins lengra upp með ánni og finna Klambragilið, það er bjúddari

Stella nýtur sín í botn á fallegum fjöllum.Aðsend

Þetta er auðveld leið með fallegu útsýni og algjört æði í góðum félagsskap. Svo mæli ég líka með að fara þarna að vetri til. Ennþá skemmtilegra og örlítið meira krefjandi! Vissulega þarf að keyra í 40 mínútur inn í Hveragerði en það er lítið mál. Stuttur akstur fyrir upplifunina.

Hvað er mikilvægast að haga í huga fyrir göngu?

Góðir skór eru það allra mikilvægasta. Maður verður að vera í skóm sem eru með góðu gripi til þess að enda ekki bara á rassinum alla gönguna. 

Ég mæli með að gefa sér tíma í að finna skó sem henta þér best.

Léttir skór með gripi sem styðja vel við fótinn og með góðri dempun. Svo er mikilvægt að klæða sig eftir veðri. Vera í léttum og góðum fatnaði sem vegur ekki mikið og passa að vera ekki í of miklu. Maður er svo fljótur að hitna um leið og púlsinn er kominn upp. Þá er mikilvægt að geta klætt af sér og svo aftur á sig þegar ofar er komið.

Góðir skór eru lykilatriðið í göngum.Aðsend

Þetta er alltaf smá dans í öllum árstíðum. Ekki klikka á vatnsbrúsanum. Svo fer það svolítið eftir lengd og tilgangi göngunnar hversu mikla næringu með hleður á sig. Það fer algjörlega eftir þörfum og mikilvægt að hver og einn finni það sem hentar sér upp á að fá ekki í magann og annað. Svo er ég algjör sólarvarnar kona. Sólarvörn alla daga allt árið um kring.

Ég hef gert það í mörg ár og mæli mikið með. Við eigum bara eina húð og það er bannað að sleppa sólarvörninni. Dóttir skin sólarvörnin sem Helga Sigrún vinkona mín þróaði og setti á markað er besta sólarvörnin að mínu mati. Hún fer ekki í augun þegar maður svitnar. 

Hverjir eru uppáhalds gönguskórnir þínir?

Þegar ég er bara að ganga og sleppi því að hlaupa þá eru Hoka Kaha 2 mínir allra uppáhalds skór. Ég er búin að fara í gegnum nokkur pör og ég elska þá. Þeir eru ótrúlega léttir miðað við stærð, með Vibram botni þannig að þeir eru með gott grip, mjög stöðugir og með geggjaða dempun. 

Þegar ég blanda göngu og hlaupum sem ég geri miklu oftar í dag þá er ég þessa dagana að nota í bland North Face Summit Vectiv Pro, Nike Zegama Trail 2 og Nike ZoomX Zegama Trail. Ég fíla skó með góðri dempun og meðalháu droppi. Það hentar mér eins og staðan er í dag.

Hvað er þægilegt nesti fyrir göngu?

Vatn, steinefni og sölt eru það allra mikilvægasta. Svo er ég mikið að vinna með banana fyrir göngu og Hleðslu eftir til að fá prótein inn strax. Mér finnst oft gott að vera með kolvetna blöndu í brúsa ef ég veit að ég er að fara á lengri æfingu. Kannski oftar en einu sinni upp Esjuna eða taka nokkra Úlla, tek það inn í bland við gelin. 

Vatn, steinefni, sölt og gel eru nauðsyn í göngu að sögn Stellu.Aðsend

Það er mjög misjafnt hvaða steinefni ég nota. Núna er ég algjörlega á R8diant lestinni af því að ég elska honey peach bragðið, Aron Can með algjöra neglu þar. En svo tek ég alltaf inn Unbroken fyrir og eftir æfingar. 

Algjör leikbreytir (e. game changer) finnst mér, get ekki mælt meira með því. Mikilvægast er að hver og einn finni hvaða nesti hentar fyrir sig. Eitthvað sem fer ekki illa í magann og gefur næga orku á tankinn.

Áttu mis góða daga?

Já, það er ótrúlegt hvað sumir dagar eru bara alveg off og allt er erfitt. Hvert skref þungt og lungun tæp. En svo getur maður farið daginn eftir og verið eins og nýr. 

Dagsformið er aldrei það sama en þetta snýst bara um að mæta. Það hefur ekki ennþá komið upp sá dagur þar sem ég sé eftir því að hafa farið í hlaup eða göngu þó að það hafi verið líkamlega krefjandi og stundum þótt ómögulegt á köflum.
Stella segir að dagsformið sé að sjálfsögðu mismunandi og því mikilvægt að hlusta á líkamann en þetta snúist fyrst og fremst um að mæta. Aðsend

Ætlarðu að ganga mikið í sumar?

Já, ég ætla að gera það. Ég er akkúrat þessa dagana að stíga upp úr meiðslum og er að gera allt sem ég get til þess að vanda mig í því ferli. 

Ég hef misst heilsuna og verið mikið að díla við meiðsli í tengslum við það. Ég veit hvernig tilfinningin er að komast ekki út að ganga eða hlaupa. Hún er ekki næs.

Svo er alls konar skemmtilegt í bígerð hjá mér og vinkonum mínum. Við erum nýbúnar að setja á laggirnar gönguhóp sem kallast Gelluvaktin. Það er hópur af flottum og drífandi konum á öllum aldri sem eru allar að gera flotta hluti í lífinu, allar að blómstra í sínu. 

Gelluvaktin ætlar að vera dugleg að ganga á fjöll í sumar!Aðsend

Við erum að bjóða í hópinn hægt og rólega. Í dag er fyrirkomulagið þannig að við erum að bjóða í hópinn og svo sendum við út hvert á að fara og hvenær þegar kemur að göngum. 

Þetta er alltaf stuttur fyrirvari svo þær komast sem komast en þetta er algjör snilld. Allar að kynnast einhverjum sem þær þekktu ekki fyrir og það myndast alls konar tengingar.

Það er stuð á toppnum!Aðsend

Einhver ráð fyrir þá sem langar að byrja?

Bara að byrja, þú sérð ekki eftir því. Ekki hugsa þetta of lengi, farðu bara af stað. En keyptu þér fyrst góða skó!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.