Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nordic Live Events sem Björgvin Þór Rúnarsson, meðeigandi fyrirtækisins, sendi á fréttastofu.
„Mikill fjöldi gesta sótti tónleikana, en engu að síður nokkuð færri en leyfi gera ráð fyrir. Við undirbúning tónleikanna var mikið kapp lagt á allt utanumhald og meðal annars tekin ákvörðun um að gæsla yrði tvöföld sú sem aðstandendum bar að halda úti,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir í tilkynningunni að skapast hafi þær aðstæður að mikill troðningur myndaðist þegar mikill fjöldi gesta hélt samtímis út úr tónleikasalnum.
Fréttastofa ræddi í dag við yfirmann öryggisgæslu á tónleikum sem sagði fimmtán mínútna pásu í dagskránni hafa orsakað troðninginn og að forðast hefði mátt ástandið með því að hleypa úr salnum á fleiri en einum stað og stýra dagskránni betur.
„Einhver tónleikagesta hlutu minniháttar meiðsl. Taka þurfti stjórn á aðstæðum strax - sem tókst á um það bil 20-30 mínútum,“ segir í tilkynningunni frá Nordic Live Events.
Á samfélagsmiðlum í gærkvöldi og í dag hefur fjöldi fólks lýst því yfir að þau hafi þurft að leita á bráðamóttökuna vegna áverka.
„Okkur þykir það mjög miður að þessar aðstæður hafi skapast á viðburði sem að öllu öðru leyti fór vel fram. Sem betur fer tókst að vinna hratt og örugglega úr málum og mikilvægast af öllu er að draga lærdóm af þessu fyrir framtíðarviðburði í húsinu,“ segir að lokum í tilkynningunni.