Greint var frá því í byrjun september í fyrra að rannsókn lögreglu á kærum á hendur tveimur netverslunum sem selja áfengi væri lokið. Mál þeirra væru nú á borði ákærusviðs embættisins. Þá höfðu málin verið til rannsóknar í rúm fjögur ár.
Hefðu ekki rannsakað málin nema tilefni væri til
Þá sagði Grímur Grímsson, alþingismaður og þáverandi yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að ákærusvið Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem færi með ákæruvald í áfengismálum, myndi fara yfir niðurstöður rannsóknarinnar og taka í framhaldinu ákvörðun um hvort ákæra yrði gefin út.
Hann sagði ljóst að grunur hefði verið uppi um refsiverða háttsemi, enda hefði lögregla ekki annars tekið málið til rannsóknar til að byrja með.
Tiltekin atriði vantaði
Í svari við fyrirspurn Vísis segir Árni Bergur Sigurðsson, aðstoðarsaksóknari á ákærusviði, að staðan á málunum sé nú sú að þeim hafi verið vísað aftur til rannsóknar hjá lögreglu öðru hvoru megin við mánaðamótin febrúar/mars.
Það sé ákærandi sem taki á endanum ákvörðun um hvort rannsókn og rannsóknargögn séu fullnægjandi til að hægt sé að taka ákvörðun um afdrif mála, svo sem útgáfu ákæru. Þannig geti ákærandi mælt fyrir um frekari rannsóknaraðgerðir af hálfu lögreglu sé þess talin þörf.
Í þessu tilviki hafi verið talið vanta upp á tiltekin atriði svo hægt væri að taka með fullnægjandi hætti ákvörðun á grundvelli laga um meðferð sakamála.
Árni Bergur segir að að rannsóknaraðgerðum loknum verði fljótlega tekin ákvörðun á ákærusviði hvort gefnar verða út ákærur.