Í grein sinni í Morgunblaðinu segir Þórdís Kolbrún að það gangi ekki að stærsti stjórnmálaflokkurinn í stjórnarandstöðu á þinginu búi við óvissu um forystu en það er staða flokksins eftir að Bjarni tilkynnti í vikunni að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram til formanns á nú og jafnframt hætta á þingi.
„Þess vegna tel ég rétt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins verði haldinn um mánaðamótin febrúar/mars eins og búið var aðákveða,” segir Þórdís Kolbrún í grein sinni.
Þórdís Kolbrún og Áslaug Arna hafa báðar lýst því yfir að þær séu tilbúnar til að leiða flokkinn en hafa þó ekki lýst yfir framboði til formanns. Það hefur enginn enn gert en þó margir verið orðaðir við hlutverkið eins og til dæmis Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðrún Hafsteinsdóttir þingmenn flokksins.
Guðlaugur Þór fór fram til formanns gegn Bjarna árið 2022 en tapaði með 40 prósent atkvæða.
Einnig hafa verið nefndir til leiks sveitarstjórnarfulltrúar eins og Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi. Auk þeirra hafa aðrir verið nefndir sem skipa ekkert hlutverk í dag á vegum flokksins eins og Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS, Stefán Einar Stefánsson blaðamaður á Morgunblaðinu og Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri fasteignafélagsins Heima.