Forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra hefur ráðið Jón Gunnarsson í matvælaráðuneytið og verður sá síðarnefndi til aðstoðar en ekki ígildi ráðherra.
„Við erum ekki að setja nýjan ráðherra eða vararáðherra eða neitt slíkt. Hann er ekki með vald til að taka stjórnsýsluákvarðanir heldur er mér til aðstoðar við að undirbúa mál og taka ákvarðanir í þeim,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Tryggja þurfi samfellu í stjórnkerfinu
Tryggja þurfi að mál fái afgreiðslu og að stjórnsýslan geti gengið sinn vanagang á meðan starfsstjórnin er að störfum.
„Það þarf að gefa út leyfi, afgreiða umsóknir, taka við skýrslum starfshópa og eftir atvikum setja inn fólk sem skipar slíka hópa og annað slíkt.“
Býstu við, á þessum tíma sem eftir er, að hvalveiðileyfi verið gefið út, t.d. til Hvals?
„Það verður bara að koma í ljós í hvaða stjórnsýsluferil það fer, ef tími er til þá getur það gerst.“
Hefur umsókn komið fram frá Hval? „Umsókn er komin til ráðuneytisins.“
Beri vott um valdníðslu
Og verður hún tekin til stjórnsýslulegrar meðferðar. Talskona Hvalavina segir vendingar dagsins hneyksli.
„Mér finnst það bera vott um mikla valdníðslu ef að Sjálfstæðismenn ætla að nýta þetta tækifæri í sex vikna starfsstjórn þar sem þeirra eina verkefni átti að vera að klára fjárlögin. Að þeir ætli að nýta það tækifæri til að gefa út veiðileyfi þrátt fyrir að það sé enn nefnd að störfum að taka út forsendur hvalveiða og hvort við eigum yfir höfuð að halda þeim áfram,“ segir Valgerður Árnadóttir, talskona Hvalavina.
Vinstri græn beri ábyrgð í málinu.
„Já mér finnst þau bera ábyrgð. Mér finnst að þau hefðu getað tekið þessar sex vikur, þau eru búin að vera með þeim í stjórn í sjö ár og hefðu getað lifað af sex vikur í viðbót bara til að halda utan um þessi málefni, að það sé ekki verið að ana út í einhverjar ákvarðanir án samráðs við þingið.“