Regnboginn er nú haldin í sautjánda sinn en hátíðin hófst á miðvikudaginn og stendur fram á annað kvöld. Mjög fjölbreytt og skemmtileg dagskrá er í gangi alla dagana. Í gærkvöldi var til dæmis haldið alþjóðlegt matarsmakk í íþróttahúsinu frá 18 þjóðlöndum en um 65% íbúa Mýrdalshrepps eru af erlendu bergi brotnir.
Elín Harpa Haraldsdóttir hjá Kötlusetrinu í Vík er framkvæmdastjóri Regnbogans og veit manna best hvað er að gerast í dag.
„Mýrdalshreppur býður í vöfflukaffi og listafólkið okkar mun síðan koma saman á Lista- og frumkvöðlamarkaði, það er ótrúlega skemmtilegt og það er ótrúlega gaman að finna kraftinn í samfélaginu, sem felst í því að hér er listafólk og frumkvöðlar út um allar koppagrundir að gera ótrúlega flotta og skemmtilega hluti og þau ætla að deila þessu með okkur,” segir Elín Harpa.

Svo verða Regnbogaleikarnir líka haldnir í dag og í kvöld verða tónleikar haldnir og kvöldið endar á balli í Leikskálum þar sem verður frítt inn.
Á morgun sunnudag verður líka heilmikið um að vera.

„Já og ein af ástæðunum fyrir því að þemað í ár er „Fögnum fjölbreytileikanum” er af því að við höfum miklu að fagna því við erum búin að fá glæsilegan nýjan leikskóla hér á svæðið og svo er fallega Víkurkirkja okkar, hún á 90 ára afmæli í ár og okkur þykir náttúrulega ofboðslega vænt um þessa fallegu kirkju.
Og einmitt, biskup Íslands, Guðrún Karls Helgadóttir kemur og predikar og flestir þeirra prestar sem hafa verið tengdir kirkjunni muni einnig taka þátt,” segir Elín Harpa og bætti þessu við í lokin.
„Ég hvet alla til að koma og kíkja á okkur og njóta með okkur en ef þið komst ekki til Víkur þá fagnið þið bara fjölbreytileikanum hvar sem þið eruð og hvernig sem þið getið, njótið helgarinnar.”