Innlent

Komst naum­lega undan aurskriðu í Eyja­fjarðar­dal

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Aurskriðan féll þegar Ragnar var að sleppa fé upp á fjall.
Aurskriðan féll þegar Ragnar var að sleppa fé upp á fjall. Aðsend

Ragnar Jónsson bóndi á Halldórsstöðum innst í Eyjafirði var að klára að sleppa fé sínu upp á fjall þegar hann þurfti að bruna undan aurskriðu sem féll þar sem hann stóð.

Hann komst sem betur fer undan og segir ekkert stórtjón hafa orðið af skriðunni. Þó hafi kafli úr girðingu skemmst þegar jörð hljóp yfir hana. Ragnar segir girðinguna hafa verið glænýja en að gott sé að ekki hafi farið verr.

„Við vorum að þvæla þarna. Við vorum að klára að sleppa á fjall. Ég sé hana þarna uppi á fjalli þegar hún er á leiðinni niður,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Klippa: Aurskriða á Halldórsstöðum í Eyjafjarðardal

Ragnar telur að mikil væta síðastliðinn sólarhring ásamt mikils kuldaveðurs undafarnar vikur hafi orsakað skriðuna.

„Það var ausandi vatnsveður í gær og frost er ekki almennilega farið úr jörðu. Það er búið að vera það lélegt vor og byrjun sumars að það er enn frost í jörðu þarna uppi. Þetta fer örugglega af stað á frosinni jörð. Jarðvegurinn sem er þíður ofan við frost hann er orðinn vatnsmettaður og tekur ekki meira vatn og þá rennur þetta af stað. Það var mígandi rigning í allan gærdag,“ segir Ragnar.

Ragnar segir einnig að skriða hafi farið á gamla bæinn sem stóð aðeins norðar en núverandi bær að Halldórsstöðum. Skriður sé að finna í gömlum heimildum þarna innst í Eyjafjarðardal.

Martina Stefani skriðumatssérfræðingur segir enga tilkynningu hafa borist Veðurstofunni en að orsök skriðunnar verði skoðuð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×