Reykvíkingur ársins 2024 er Marta Wieczorek, en hún er grunnskólakennari í Hólabrekkuskóla í Breiðholti og aðstoðarskólastjóri við Pólska skólann, sem kennir pólsku og miðar að því að efla tvítyngda nemendur. Auk þess kennir Marta íslenskunámskeið fyrir börn sem nýkomin eru til Reykjavíkur á vegum Suðurmiðstöðvar og er menningarsendiherra Póllands í Breiðholti. Þá hefur hún einnig starfað á leikskóla í Breiðholti. Hún segist enn vera hissa yfir útnefningunni.
„En mjög ánægð að einhver tók eftir að maður er að vinna fyrir samfélagið og að þetta skilar sér einhversstaðar. Það er bara gott að vinna með öllu þessu fólki, það væri ekki hægt að vera ein í þessu,“ segir Marta.
Hefð hefur skapast fyrir því að Reykvíkingur ársins opni laxveiðitímabilið í Elliðaánum, það gerði Marta í morgun.
„Þetta var mjög skemmtilegt, ég gerði þetta í fyrsta skipti á Íslandi,“ sagði Marta, sem hefur búið hér á landi í tæp 16 ár.
Hún segir hafa örlað fyrir pressu á árbakkanum.
„Allir voru að horfa og stóðu með myndavélina, bíða eftir fyrsta laxinum. En það tókst og var mjög skemmtilegt.“
Marta er þakklát mörgum fyrir samstarfið í gegnum tíðina.
„Það er gott að vinna með öllu þessu fólki sem ég er búin að hitta í leikskólanum, skólanum, Suðurmiðstöðinni og ég vil líka þakka vinum og fjölskyldu minni, sem eru að styðja mig í þessu starfi,“ sagði Marta Wieczorek, Reykvíkingur ársins 2024.