Í fréttum Stöðvar 2 var farið í Staðarhverfi sem er um þrjá kílómetra vestan Grindavíkurbæjar. Þar er golfvöllur Grindvíkinga en þar er einnig sauðfjárbóndi, það er að segja hobbíbóndi, með aðstöðu fyrir fé sitt. Þar hittum við Hermann Ólafsson, eiganda sjávarútvegsfyrirtæksins Stakkavíkur, sem bendir á að þar sé hann fjær eldsumbrotunum en í bænum sjálfum.
„Hér erum við fimm sex kílómetra frá. Þetta er allt í lagi hérna. Þetta er ekkert vesen hér, ekkert hraun að koma hingað,” segir Hermann.
Hann segir að það hafi gerst strax í desember að sauðfjárbændur hafi verið reknir burt úr Grindavík með fé sitt. Svo hafi þeir farið að tínast til baka.
„Þá fengu þeir leyfi til þess að koma með þær hingað til mín. Þá var ég kominn með allan hópinn, bara 150 fjár hingað.”

Hermann segir þetta fé frá fimm eða sex bændum og sé stór hluti af sauðfjáreign Grindvíkinga.
Fyrir sauðburðinn hafi hinir tekið féð aftur til sín þannig að ærnar báru hjá þeim í Grindavík
„Þá kemur þetta gos aftur núna þannig að þeir keyrðu fénu bara öllu aftur til mín. Það er allt hérna inn í húsi hjá mér, nóg pláss.”
Hann segir áformað núna um helgina að gefa ormalyf og fara síðan með féð á fjall, austur í Krýsuvík í beitarhólf þar.
Hermann var einnig hótelhaldari fyrir mannfólk í Grindavík en segist núna vera kominn með rolluhótel.
„Þetta er svona sárabót fyrir að missa hótelið. Ég var með gistiheimili í Grindavík og það er lokað. Þetta er svona aðeins smá sárabót að vera með rolluhótel,” segir Hermann og hlær.
„Að vísu fæ ég ekkert fyrir þetta nema bara vinnuna, sko. En það er bara gaman að þessu, að fá þetta allt í heimsókn, þetta fólk og fé,” segir útvegsbóndinn Hermann Ólafsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má heyra formann bæjarráðs Grindavíkur, Hjálmar Hallgrímsson, í fyrradag ræða stöðuna ofan á einum varnargarðanna sem varið hafa bæinn: