Innlent

Þor­valdur tekur undir goslokaspá Haraldar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur hefur rýnt í stöðuna á Reykjanesskaga undanfarna mánuði og ár.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur hefur rýnt í stöðuna á Reykjanesskaga undanfarna mánuði og ár. Vísir/Arnar

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að ef fram heldur sem horfir virðist spámennska Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings og félaga vera á réttu róli. Þeir spá goslokum í Sundhnúkagígaröðinni í júlí og þá gæti verið komið 800 ára hlé á umbrotum að sögn Þorvaldar.

Har­ald­ur Sig­urðsson eld­fjalla­fræðing­ur og Grím­ur Björns­son jarðeðlis­fræðing­ur hafa á bloggi þess fyrrnefnda rýnt í eldgos undanfarnar vikur. Það gerðu þeir síðast fyrir viku. Síðan þá hefur gosið í Sundhnúksgígaröðinni í sjöunda skipti.

„Kólnun og storknun kviku á jöðrum gangsins er stöðugt að þrengja aðfærsluæðina og mun að lokum stöðva virknina undir Sundhnúksgígaröðinni. Út frá slíkum gögnum höfum við Grímur Björnsson því spáð goslokum í byrjun júlí í ár,“ sagði Haraldur og skaut á Almannavarnir.

„Nú, Almannavarnir gefa lítið fyrir slíkar spár og kalla framtak okkar „tölfræðileik“ (Mbl. 18. mars, 2024). Aðrir kynnu að kalla slíka starfsemi vísindi. Það er leitt og reyndar töluvert áhyggjuefni að Almannavarnir hafi slík neikvæð viðhorf gagnvart vísindunum.“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur tjáði sig um málið á Facebook í dag.

„Rétt er það að eldgosin setja Grindavík í frekar erfiða stöðu - góðu fréttirnar eru að það virðist sem að það sé að draga úr uppstreymi á kviku úr dýpri kvikugeymslunni og ef heldur áfram sem horfir, þá virðist spámennska Haraldar Sig og félaga vera á réttu róli og Sundhnúkavirknin ætti að setjast í helgan stein sinni partinn í júlí eða fyrripartinn í ágúst. Ef þetta rætist er komið 800 ára hlé á umbrotunum á undhnúkareininni. Vonum það besta.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×