Lífið

Bæjar­stjórn Garða­bæjar ætlar að reisa styttu af kettinum Sushi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sushi unir sér best ofan á sjálfsafgreiðslukassanum í Hagkaup enda rödd kassans vinaleg.
Sushi unir sér best ofan á sjálfsafgreiðslukassanum í Hagkaup enda rödd kassans vinaleg. instagram/sigurjón ólason

Bæjarstjórn Garðabæjar ætlar að láta reisa styttu af frægasta ketti bæjarins, Sushi, sem mun því sem fréttastofa kemst næst brjóta blað í sögunni og verða fyrsti íslenski kötturinn sem fær reistan skúlptúr sér til heiðurs. Kötturinn er fastagestur í Hagkaup og sækir kennslustundir í Garðaskóla. 

Stytta af kettinum Sushi er ein þeirra fimmtán hugmynda sem bæjarbúar studdu mest í verkefninu Betri Garðabær þar sem íbúum gafst kostur á að senda inn og greiða atkvæði um úrbætur í nærumhverfinu.

„Svona virkar lýðræðið. Mér finnst þetta góð hugmynd en það eru ekkert allir sammála mér en við komum þessari góðu styttu fyrir og heiðrum Sushi,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Jón Sigurðsson og Sushi

Kötturinn mun því bætast í hóp Jóns Sigurðssonar, Tómasar Guðmundssonar og fleiri merkra manna og kvenna sem hafa fengið reista styttu sér til heiðurs. Sushi er stjarna í Garðabæ og heldur úti Instagram reikningi.

Sushi þykir gott að leggja sig í Hagkaup Garðabæ.Instagram/Sushi

Það var íbúi ótengdur Sushi sem sendi hugmyndina inn enda er kötturinn frægur í bænum.

„Það er af því að hún heldur að hún sé mennsk. Hún bara labbar inn eins og hún eigi heima hjá öllum og inn í öll fyrirtæki, labbar inn í Hagkaup eins og hún sé orðin of sein á fund og gerir sig heimakomna alls staðar,“ segir Sara Dís Hjaltested, eigandi Sushi.

Fastagestur í Hagkaup og Garðaskóla

Garðaskóli er í miklu uppáhaldi þar sem hún situr oft heilu kennslustundirnar auk þess sem hún skellir sér í sundlaugina og í Hagkaup þar sem hún liggur á sjálfsafgreiðslukössunum og kíkir í mátunarklefa.

„Og er mjög góð í því að láta líta út fyrir að hún eigi rosalega bágt. Það halda allir að hún sé týnd eða slösuð eða veik.“

Sem verður til þess að eigendurnir fá nánast daglega símtöl þar sem íbúar halda að kötturinn sé veikur og þeir beðnir um að sækja hann.

„Ég lét taka símanúmerið mitt af ólinni hjá henni því ég nenni ekki að fá þessi símtöl. Hún fær símtölin. Ég sótti hana í A4 í Smáralind um daginn, veit ekki hvernig hún komst þangað,“ segir Karim Djermoun, eigandi Sushi.

Sushi gerir nákvæmlega það sem hún vill enda er hún með Garðbæinga í vasanum.instagram/sushi

Tilkynntu sig til lögreglunnar

Þá hefur Karim fengið símtöl frá eigendum bíla sem segja köttinn neita að hoppa af húddinu auk þess sem þau Sara þurftu eitt sinn að tilkynna sig til lögreglunar þegar þau þurftu að brjótast inn í gám til að bjarga kettinum út.

Og þau sem fréttastofa hitti í dag þekktu öll köttinn.

Þekkir þú kisuna sem er fyrir aftan þig? „Já,“ segir Helgi Freyr Davíðsson, 11 ára og bætir við að hún heiti Sushi.

„Hún kemur stundum inn í stofuna og skólann.“

Dýrið sækir reglulega kennslustundir í Garðaskóla.instagram/sushi

Fór í partí í Stjörnuheimilinu síðustu helgi

Hvað heitir hann? „Sushi og það vita allir hver hann er,“ segir Gunnar Hrafn Ólafsson, 12 ára.

„Það vill nú þannig til að ég var í samkvæmi í Stjörnuheimilinu núna síðustu helgi og þar kom köttur allt í einu inn í mitt samkvæmi og það var Sushi, partíkötturinn að sjálfsögðu mættur,“ segir Almar.

Eigendur Sushi hafa oft þurft að sækja köttinn í fyrirtæki eða heimahús seint á kvöldin.instagram/sushi

Hún treður sér inn víða og tróð sér raunar inn á Söru og Karim þegar hún bjó hjá fyrri eigendum.

„Hún var alltaf heima hjá okkur og eigandi hennar alltaf að sækja hana. Það endaði þannig að við buðumst bara til að eiga hana,“ segir Sara.

Sushi tróð sér inn á núverandi eigendur sem segja köttinn í senn skemmtilegan og krefjandi.instagram/sushi

Hvorki er búið að ákveða hvernig styttan muni líta út né hvar hún verði reist.

„Sennilega þurfum við að fá unga fólkið í Garðabæ með okkur í lið í að útfæra þessa góðu hugmynd, bæði hvað varðar styttuna sem slíka og líka staðsetninguna,“ segir Almar.

Almar Guðmundsson er bæjarstjóri Garðabæjar. Hann þekkir köttinn Sushi ágætlega enda voru þeir saman í partíi síðustu helgi.sigurjón ólason





Fleiri fréttir

Sjá meira


×