Innlent

Vilja upp­lýsingar frá Strætó vegna fram­komu í garð barna

Jón Þór Stefánsson skrifar
Salvör Nordal er umboðsmaður barna, en hún óskar eftir upplýsingum um verklagsreglur Strætó.
Salvör Nordal er umboðsmaður barna, en hún óskar eftir upplýsingum um verklagsreglur Strætó. Vísir/Arnar/Einar

Umboðsmaður barna hefur sent Strætó bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um verklagsreglur þess varðandi samskipti við börn og hvernig vagnstjórum beri að tryggja öryggi þeirra.

Í bréfinu segir að umboðsmaður hafi í gegnum árin fengið þónokkurn fjölda erinda frá börnum og foreldrum þar sem kvartað er yfir framkomu eð viðbrögðum vagnstjóra gagnvart tilteknum börnum eða hópum barna. Þá hafi verið fjallað um slík mál í fjölmiðlum.

„Af því tilefni óskar umboðsmaður barna eftir upplýsingum um það hvort sérstakar verklagsreglur séu til staðar hjá Strætó varðandi samskipti við börn og hvernig vangstjórum ber að tryggja öryggi þeirra. Séu slíkar verklagsreglur fyrir hendi óskar embættið eftir upplýsingum um með hvaða hætti þær eru kynntar starfsfólki og hvernig þeim er framfylgt í daglegu starfi Strætó. Séu slíkar reglur ekki fyrir hendi óskar umboðsmaður barna einnig eftir upplýsingum um það og þá hvort til standi að bæta þar úr,“ segir í bréfinu.

Þar er einnig bent á að stjórnvöldum, einstaklingum, félögum og samtökum sé skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu.

Einnig óskar umboðsmaður eftir upplýsingunum eins fljótt og auðið er.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×