Lífið

Fleiri svart­sýnir á gott gengi Heru

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hera Björk stígur á svið í Malmö annað kvöld.
Hera Björk stígur á svið í Malmö annað kvöld. Alma Bengtsson/EBU

Fleiri eru svartsýnir á gott gengi Íslands í Eurovision söngvakeppninni í ár heldur en bjartsýnir. Leita þarf aftur til ársins 2018 þegar Ari Ólafs keppti fyrir Íslands hönd til þess að finna álíka fjölda þeirra sem telja að Ísland muni hafna í einu af neðstu sætunum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Maskínu. 28,1 prósent telur að Hera Björk muni lenda í einu af neðstu sætunum, 36. til 40. sæti, með lag sitt Scared of Heights. 20,2 prósent telja að hún verði í 31. til 35. sæti og 16,3 prósent að hún verði í 26. til 30. sæti. Rúm 10,5 prósent telja að Ísland lendi í einum af efstu fimmtán sætunum.

Töluvert fleiri höfðu trú á góðu gengi Diljáar með lag hennar Power í Eurovision í fyrra. Einungis fimm prósent töldu að hún myndi lenda í einum af neðstu sætunum. Landsmenn hafa ekki verið svo svartsýnir á gengi landsins í keppninni síðan árið 2018 þegar Ari Ólafs keppti með lag sitt Our Choice. Þá töldu 34 prósent landsmanna að Ísland yrði í einum af neðstu sætunum.

Könnunin var lögð fyrir þjóðgátt Maskínu, þjóðhóp fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu, á aldrinum átján ára og eldri. 1072 manns svöruðu könnuninni sem fór fram 22. til 26. apríl.

Þegar litið er til kyns, aldurs, búsetu, menntunar, tekna og þess hvaða flokk viðkomandi myndi kjósa virðist lítið bera á milli. 60 ára og eldri eru bjartsýnastir á að Hera muni lenda í einhverju af efstu tuttugu sætunum en 30,2 prósent þeirra telja að hún gæti lent í 16. til 20. sæti á meðan einungis 9,7 prósent 30 til 39 ára hafa þá trú.

Flestir sem kysu Miðflokkinn virðast hafa þá trú að Hera geti jafnvel lent í efstu fimm sætunum. 4,6 prósent þeirra telja svo vera en einungis 0,8 prósent þeirra sem kjósa Framsóknarflokkinn. VG kemur þar næst á eftir en 4,3 prósent kjósenda flokksins hafa mikla trú á Heru en einungis 1,8 prósent þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn og 1,4 prósent þeirra sem kysu Samfylkingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×