Innlent

Að­stoðar­rektor í Banda­ríkjunum verður rektor Há­skólans á Akur­eyri

Kjartan Kjartansson skrifar
Áslaug Ásgeirsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, verður næsti rektor Háskólans á Akureyri.
Áslaug Ásgeirsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, verður næsti rektor Háskólans á Akureyri. Háskólinn á Akureyri

Háskólaráðherra hefur skipað Áslaugu Ásgeirsdóttur rektor Háskólans á Akureyri. Áslaug, sem var ein fimm umsækjenda um stöðuna, hefur verið aðstoðarrektor háskóla í Maine í Bandaríkjunum undanfarin fimm ár.

Skipanin tekur gildi 1. júlí og er til fimm ára. Háskólaráð tilnefndi Áslaugu sem rektor HA og samþykkti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tillöguna.

Áslaug er prófessor við Bates-háskóla í Lewiston í Maine í Bandaríkjunum þar sem hún hefur starfað frá 2001. Þar hefur hún meðal annars gegnt störfum aðstoðarrektors og deildarforseta. Hún er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Washington-háskóla í St. Louis í Bandaríkjunum. 

Auk kennslu og rannsókna, hefur Áslaug meðal annars komið að stjórnun rannsóknasjóðs, endurskoðun á nefndakerfi, yfirumsjón með námsmati, endurskipulagningu deildar og fleiri verkefnum bæði sem stjórnandi og prófessor hjá Bates-háskólanum, að því er segir í tilkynningu á vef Háskólans á Akureyri.

Áslaug hefur einnig starfað sem gestaprófessor við Háskólasetur Vestfjarða og sem Fulbright-fræðimaður hjá Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×