Innlent

Kýr ropa á 40 til 60 sekúndna fresti

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jóhannes Kristjánsson, kennari við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, sem stýrir tilrauninni í fjósinu með metanlosunina.
Jóhannes Kristjánsson, kennari við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, sem stýrir tilrauninni í fjósinu með metanlosunina. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Kýr losa mikið metan en til að vita nákvæmlega hvað það er mikið er tilraun í gangi í fjósinu á Hvanneyri þar sem metanlosun þeirra er mæld í sérstökum bás, á meðan þær éta fóður með sérstöku íblöndunarefni, sem á að minnka metanlosun þeirra. Og það sem meira er, kýr eru ropandi meira og minna allan daginn, eða á 40 til 60 sekúndna fresti.

Það fer vel um kýrnar í fjósinu enda dekrað við þær alla daga á milli þess, sem þær fara í mjaltaþjóninn til að láta mjólka sig.

Jóhannes Kristjánsson kennari við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri fer fyrir tilrauninni með metanlosunina, sem fer fram í sérstökum bás.

„Þetta gerist þannig að þær koma í hann og eru verðlaunaðar með kjarnfóðri, fá sem sagt að éta fóður, sem þær eru æstar í. Þegar þær eru að éta fóður þá er allt mælt frá þeim, allt sem þær gefa frá sér, þar að segja koltvísýringur og metan en kýr eru að ropa á 40 til 60 sekúndna fresti, þannig að á stuttu tímabili er hægt að mæla hvað kemur frá þeim,” segir Jóhannes.

Jóhannes segir að kýrnar mæti nokkrum sinnum á dag í básinn og þannig sé hægt að fá gott meðaltal á losun metans yfir sólarhringinn. Allar kýrnar í fjósinu fá nú fóður með íblöndunarefni, sem heitir Bovaer en efnið minnkar metanlosun frá vömb jórturdýra allt að tuttugu til þrjátíu prósent.

Kýrnar eru æstar í að komast í tilraunabásinn enda vita þær að þá fá þær eitthvað mjög, mjög gott að éta.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Kýrnar eru æstar í fóðrið þegar dráttarvél fer í gegnum fjósið með heyið þeirra með íblöndunarefninu í.

„Þarna eru tækifæri fyrir mjólkurframleiðendur og þá sem eru í nautgriparækt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á býsna einfaldan hátt og það er eitthvað, sem landbúnaðurinn hefur horft á og kröfur eru til,” segir Jóhannes.

En er ekki svolítið skondið að nota kýr í þessu skyni?

„Jú, jú en svona er þetta, þær losa mikið af metan greyin og þar er náttúrulega stór þáttur af þeirra kolefnisspori, það er metanlosunin og því gullið tækifæri að nýta það þá til minnkunar.”

Jóhannes ásamt starfsfólki í fjósinu á Hvanneyri eða þeim Birni Inga Ólafssyni, fjósameistara, Gunnhildi Gísladóttur og Agli Gunnarssyni.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×